• fös. 17. mar. 2023
  • Landslið
  • U19 karla
  • U19 kvenna
  • U17 karla
  • U17 kvenna

Næsta lota leikja yngri landsliða að hefjast

Mynd - Hulda Margrét Óladóttir

Á laugardag hefst næsta lota landsleikja hjá yngri landsliðum þegar U17 kvenna hefur leik í seinni umferð undankeppni EM 2023.

Ísland mætir þar Lúxemborg og Albaníu, en þar sem liðið er í B deild undankeppninnar er ljóst að það á ekki möguleika á sæti í lokakeppni mótsins. 

Hin liðin þrjú, U17 karla ásamt U19 karla og kvenna eiga hins vegar öll möguleika á því að komast í lokakeppni EM. 

Mótin á vef KSÍ

U17 kvenna

U17 karla

U19 kvenna

U19 karla

U17 kvenna

Ísland er þar í þriggja liða riðli með Lúxemborg og Albaníu, en riðillinn verður leikinn í Albaníu. Það lið sem endar í efsta sæti riðilsins fer upp í A deild fyrir fyrstu umferð undankeppninnar fyrir EM 2024. Allir leikirnir verða í beinni útsendingu á Youtube síðu albanska knattspyrnusambandsins. Lokakeppnin fer fram í Eistlandi 14.-26. maí.

U17 karla

Ísland er í riðli með Wales, Skotlandi og Svartfjallalandi og fer riðillinn fram í Wales. Þau lið sem enda í efsta sæti riðlanna átta komast beint áfram í lokakeppnina ásamt þeim sjö liðum sem eru með bestan árangur í öðru sæti riðlanna. Fyrsti leikur Íslands í riðlinum verður leikinn 22. mars þegar liðið mætir Svartfjallalandi. Lokakeppnin fer fram í Ungverjalandi 17. maí - 2. júní. Beðið er eftir upplýsingum varðandi streymi frá leikjum mótsins, en þó er ljóst að Wales sýnir alla sína leiki á sínum miðlum.

U19 kvenna

Ísland hefur leik 5. apríl þegar liðið mætir Danmörku, en í riðlinum eru einnig Svíþjóð og Úkraína. Riðillinn verður leikinn í Danmörku. Það lið sem endar í efsta sæti hans fer beint áfram í lokakeppnina sem verður haldin í Belgíu 18.-30. júlí. Þar sem Belgía mun einnig taka þátt í undankeppninni þá gæti komið upp sú staða að lið með bestan árangur í 2. sæti komist áfram takist Belgum að vinna sinn riðil. Beðið er eftir upplýsingum um streymi frá leikjum riðilsins.

U19 karla

Ísland er í riðli með Englandi, Tyrklandi og Ungverjalandi, en leikið verður á Englandi. Ísland hefur leik 22. mars þegar það mætir Tyrklandi. Liðið sem endar í efsta sæti riðilsins fer áfram í lokakeppnina sem fer fram á Möltu 3.-16. júlí. Enska knattspyrnusambandið mun ekki sýna beint frá leikjum riðilsins.