Siðareglur KSÍ

Á stjórnarfundi 18. desember 2009 voru samþykktar Siðareglur KSÍ og tóku þær gildi 1. janúar 2010.  

Siðareglur KSÍ
2010 útgáfa


Efnisyfirlit:

I. Gildissvið
1. Gildissvið

II. Reglur um hegðun
2. Almennar reglur
3. Hagsmunaárekstrar
4. Framkoma gagnvart stjórnvöldum og sjálfstæðum samtökum
5. Mismunun
6. Vernd persónulegra réttinda
7. Hollusta og trúnaður
8. Móttaka eða afhending gjafa og þess háttar
9. Mútur
10. Umboðslaun
11. Veðmál
12. Tilkynningarskylda

III. Framgangsmáti
13. Skipan og valdsvið Siðanefndar
14. Kærur og ábendingar
15. Viðurlög og refsingar
16. Áfrýjunarákvæði
17. Ábyrgðarsvið

IV. Lokaákvæði

18. Samþykkt og gildistaka

Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) er samband héraðssambanda og íþróttabandalaga þeirra félaga innan ÍSÍ, sem iðka og keppa í knattspyrnu. KSÍ er ábyrgt fyrir því að vernda heilindi og orðspor knattspyrnunnar. KSÍ leitast þannig stöðugt við að vernda ímynd sína og knattspyrnunnar frá skaða sem hlotist getur af ósiðlegum eða ósiðferðilegum aðferðum og athæfi. Eftirfarandi siðareglur sem byggja á siðareglum FIFA, (FIFA Code of Ethics) hafa verið samþykktar með hliðsjón af því.

1. Gildissvið

1.1. Siðareglur þessar eiga við um alla fulltrúa og starfsmenn KSÍ. Til fulltrúa KSÍ og starfsmanna teljast allir meðlimir stjórnar og nefnda, dómarar, þjálfarar, leiðbeinendur og sérhverjir þeir sem starfa á vegum KSÍ og bera ábyrgð á fjárhagslegum, tæknilegum, læknisfræðilegum eða stjórnunarlegum málefnum hjá KSÍ.
1.2. Leikmenn landsliða undirgangast agareglur landsliðsþjálfara og reglur um keppnisferðir sem byggja á þessum siðareglum.
1.3. Sérhverjar aðrar reglugerðir varðandi siðferði og hegðun er ná til fulltrúa KSÍ, starfsmanna og leikmanna halda gildi sínu svo fremi sem þær stangast ekki á við eftirfarandi ákvæði.

II. Reglur um hegðun

2. Almennar reglur

2.1. Ætlast er til þess að fulltrúar KSÍ geri sér grein fyrir hlutverkum sínum og skyldum sem og þeirri ábyrgð sem þeim fylgir. Framferði þeirra skal í senn endurspegla stuðning þeirra við grundvallarreglur og markmið KSÍ, aðildarfélaga þess, UEFA og FIFA og ber þeim að forðast allt sem skaðað getur orðstír þeirra, heiður og tilgang.
2.2. Fulltrúar skulu aðhyllast siðferðileg viðhorf við skyldustörf sín. Þeim ber að heita því að koma fram af myndugleika og minnast þess að þeir, sem fulltrúar KSÍ, ber að koma fram af fullkomnum trúverðugleika og heilindum.
2.3. Fulltrúar KSÍ mega ekki misnota aðstöðu sína við skyldustörf sín með neinum hætti, allra síst hvað varðar að nýta sér stöðu sína til eigin hags eða framdráttar.
2.4. Einstaklingar er starfa sem fulltrúar KSÍ skulu kynna sér ákvæði þessara reglna og undirgangast þau skilyrði er þær setja.

3. Hagsmunaárekstrar

3.1. Stjórnarmenn og starfsmenn skulu gefa upp alla þá sérhagsmuni sem kunna að tengjast hlutverki þeirra fyrir KSÍ.

3.2. Við skyldustörf sín skulu fulltrúar KSÍ forðast að upp komi sérhver sú staða sem leitt getur til hagsmunaárekstra. Það teljast hagsmunaárekstrar ef fulltrúar eiga, eða virðast eiga, persónulegra hagsmuna að gæta sem draga úr hæfi þeirra til að rækja skyldur sínar sem fulltrúar af heilindum og á sjálfstæðan og stefnufastan máta. Persónulegir hagsmunir fela m.a. í sér að öðlast hvers konar hagnað fyrir sjálfan sig, fjölskylduna, ættingja, vini og kunningja.
3.3. Fulltrúar KSÍ mega ekki sinna skyldum sínum í tilfellum þar sem fyrir hendi eru hagsmunaárekstrar eða möguleiki á þeim. Gefa ber upp og tilkynna þegar í stað til framkvæmdastjóra um sérhvert það tilfelli þar sem hætta er á hagsmunaárekstrum.
3.4. Framkvæmdastjóri KSÍ skal meta hvort um hagsmunaárekstra sé að ræða eða ekki.

4. Framkoma gagnvart stjórnvöldum og sjálfstæðum samtökum

4.1. Auk þess að virða grundvallarreglur 2. greinar, ber fulltrúum KSÍ að vera hlutlausir í samskiptum sínum við opinberar stofnanir, innlend og alþjóðleg samtök, sambönd og hópa, í samræmi við grundvallarhugsjónir KSÍ, UEFA og FIFA og bregðast almennt við með þeim hætti að það samræmist hlutverki þeirra og heilindum.

5. Mismunun

5.1. Fulltrúar mega ekki misbjóða virðingu einstaklinga, eða hópi einstaklinga, með orðum eða athæfi sem bera í sér fyrirlitningu, manngreinarálit eða mannorðsspjöll hvað varðar kynferði, þjóðerni, kynþátt, litarhaft, menningu, tungumál, trúarbrögð eða kynhneigð.

6. Vernd persónulegra réttinda

6.1. Við skyldustörf sín skulu fulltrúar tryggja að persónuleg réttindi þeirra einstaklinga sem þeir eru í sambandi við og eiga í samskiptum við séu varin, virt og tryggð.

7. Hollusta og trúnaður

7.1. Við skyldustörf sín skulu fulltrúar gera sér grein fyrir trúnaðarskuldbindingum sínum, sérstaklega gagnvart KSÍ, aðildarfélögum þess, UEFA og FIFA.
7.2. Með hliðsjón af hlutverki sínu skulu fulltrúar varðveita sérhverjar þær upplýsingar sem þeir öðlast við skyldustörf sín sem trúnaðarmál.

8. Móttaka eða afhending gjafa og þess háttar

8.1. Fulltrúum KSÍ er óheimilt að taka við gjöfum og þess háttar ef verðmæti þeirra er umfram það sem eðlilegt getur talist. Ef vafi ríkir bera að hafna móttöku.
8.2. Við skyldustörf sín er fulltrúum KSÍ heimilt að gefa gjafir og þess háttar ef verðmæti þeirra er ekki umfram það sem eðlilegt getur talist.

9. Mútur

9.1. Fulltrúum KSÍ er óheimilt að þiggja mútur. Mútur geta falið í sé að þiggja gjöf eða þess háttar sem fulltrúum KSÍ er boðið upp á, er lofað eða fá sent, í þeim tilgangi að fá þá til þess að bregðast skyldum sínum eða að koma fram með óheiðarlegum hætti.
9.2. Fulltrúum KSÍ er óheimilt að múta aðila, eða að hvetja aðra til gera það, í þeim tilgangi að öðlast af því hag fyrir sjálfa sig.

10. Umboðslaun

10.1. Fulltrúum KSÍ er bannað að taka á móti umboðslaunum, eða loforðum um umboðslaun, fyrir hvers konar samningagerð við skyldustörf sín, nema og þá aðeins að framkvæmdastjóri KSÍ hafi sérstaklega heimilað þeim það í tilfelli starfsmanna og stjórn KSÍ í tilfelli framkvæmdastjóra og formanns KSÍ.

11. Veðmál

11.1. Fulltrúum KSÍ er óheimil þátttaka, hvort heldur sem er með beinum eða óbeinum hætti, í veðmálum, fjárhættuspilum, happdrætti og þess háttar viðburðum eða viðskiptum í tengslum við knattspyrnuleiki sem viðkomandi hefur eða getur haft áhrif á, þ.e.a.s. opinbera knattspyrnuleiki á Íslandi sem falla undir lögsögu KSÍ.

12. Tilkynningarskylda

12.1. Fulltrúar KSÍ skulu tilkynna um meint brot á reglum þessum til framkvæmdastjóra KSÍ sem gefur Siðanefnd KSÍ (sjá síðar) skýrslu um málið.

12.2. Þeir einstaklingar sem bendlaðir við málið skulu, ef eftir því er leitað, gefa skýrslu til nefndar þeirrar sem ber ábyrgð á málinu og útvega þau gögn sem óskað er eftir til skoðunar.

III. Framgangsmáti

13. Skipan og valdsvið Siðanefndar

13.1. Siðanefnd KSÍ skal skipuð þremur fulltrúum og jafnmörgum til vara. Fulltrúar í nefndina skulu kosnir á ársþingi KSÍ og þar af einn sem formaður. Kosið skal til tveggja ára í senn.
13.2. Siðanefnd KSÍ dæmir í málum sem falla undir ákvæði þessara reglna KSÍ.
13.3. Framferði fulltrúa KSÍ fellur undir valdsvið Siðanefndar KSÍ.
13.4. Siðanefnd setur sér nánari starfsreglur sem samþykktar skulu af stjórn KSÍ.

14. Kærur og ábendingar

14.1. Siðanefnd KSÍ tekur einungis gildar kærur frá stjórn KSÍ, stjórn ÍSÍ og framkvæmdastjóra KSÍ. Stjórnum aðildarfélaga KSÍ er jafnframt heimilt að koma á framfæri ábendingum um brot á reglunum til þessara sömu aðila.

15. Viðurlög og refsingar

15.1. Siðanefnd KSÍ getur beitt eftirfarandi viðurlögum við brotum á reglum þessum:
15.1.1. Áminning
15.1.2. Ávítur
15.1.3. Sektir að hámarki kr. 100.000
15.1.4. Lagt til tímabundna brottvikningu úr starfi við stjórn eða framkvæmdastjóra.
15.1.5. Lagt til brottvikningu úr starfi við stjórn eða framkvæmdastjóra.
15.1.6. Aðrar þær refsingar er lög og reglugerðir KSÍ tiltaka og heimila.

16. Áfrýjunarákvæði

16.1. Skjóta má ákvörðunum Siðanefndar til Áfrýjunardómstóls KSÍ, nema ef refsingin felur í sér:
a. Áminningu;
b. Ávítur
c. Sekt lægri en kr. 25.000

17. Ábyrgðarsvið

17.1. Fjalla ber um mál sem falla bæði undir ákvæði þessara siðareglna og reglugerðar KSÍ um aga- og úrskurðarmál fyrst og fremst á vettvangi aga- og úrskurðarnefndar KSÍ. Formenn beggja nefnda skulu þó að öllu jöfnu sammælast um það fyrirfram hvor nefndin taki ábyrgð á málinu.

IV. Lokaákvæði

18. Samþykkt og gildistaka

Reglugerð þessi er sett með stoð í 18. grein laga KSÍ. Hún var samþykkt á fundi KSÍ þann 18. desember 2009 og tekur gildi 1. janúar 2010.