• fös. 28. apr. 2023
  • Leyfiskerfi
  • Stjórn

Lúðvík hættir í leyfisnefnd UEFA

Lúðvík S. Georgsson, fyrrverandi stjórnarmaður í KSÍ og fyrrverandi formaður leyfisráðs KSÍ, hættir í leyfisnefnd UEFA á þessu ári vegna aldurstakmarkana í nefndum UEFA. Lúðvík hefur setið í leyfisnefnd UEFA síðan 2006, en sú nefnd fer með málefni leyfiskerfisins innan UEFA. Í nefndinni sitja jafnan 10 einstaklingar frá jafn mörgum löndum og er valið í nefndina til tveggja ára í senn.

Lúðvík, sem í dag er formaður aðalstjórnar KR, á að baki áratuga langt og mikilvægt starf fyrir knattspyrnuhreyfinguna. Hann sat í stjórn knattspyrnudeildar KR árin 1980-1995, sem formaður síðustu fjögur árin, og sat síðan í stjórn KSÍ 1996-2014, m.a. sem ritari og varaformaður, en hætti í stjórn að loknu ársþingi 2014. Að loknu þinginu var Lúðvík sæmdur gullmerki KSÍ og heiðurskrossi ÍSÍ.

Lúðvík var formaður í leyfisráði KSÍ um árabil og gegndi lykilhlutverki í innleiðingu og framkvæmd leyfiskerfis.

Á ársþingi KSÍ árið 2020, sem haldið var í Ólafsvík, var Lúðvík sæmdur heiðurskrossi KSÍ.

Mynd:  Lúðvík á ársþinginu í Ólafsvík 2020 ásamt Guðna Bergssyni þáverandi formanni KSÍ og Klöru Bjartmarz framkvæmdastjóra KSÍ.