• mið. 28. nóv. 2018
  • Fundagerðir
  • stjórn
  • Fundargerðir

2212 fundur stjórnar KSÍ- 22. nóvember 2018

Mættir:  Guðni Bergsson formaður, Guðrún Inga Sívertsen, Gísli Gíslason, Ingi Sigurðsson, Magnús Gylfason, Valgeir Sigurðsson (tók sæti á fundi kl. 16:20) og Vignir Már Þormóðsson.  
Mættir varamenn:  Kristinn Jakobsson og Jóhann Torfason. 

Þá sat Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri fundinn og ritaði fundargerð.

Fjarverandi:  Borghildur Sigurðardóttir og Ragnhildur Skúladóttir aðalmenn í stjórn og Ingvar Guðjónsson varamaður í stjórn.   

Þetta var gert:

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Fundargerðir nefnda voru lagðar fram til kynningar:
    • Mótanefnd KSÍ 24. október og 21. nóvember 2018.
    • Framkvæmdastjóri KSÍ kynnti umræðu sem fram fór á fundi fjárhagsnefndar fyrr í dag um  sundurliðanir í ársreikningum sambandsins.  Vilji er til þess að birta frekari sundurliðanir en gert hefur verið.  Stjórn er jákvæð gagnvart þessum breytingum og verður unnið áfram að undirbúningi þeirra.  Þá var ennfremur rætt um að birta greinargerð með forsendum með fjárhagsáætlun 2019.  Stefnt að því að kynna fyrstu drög að fjárhagsáætlun 2019 á næsta stjórnarfundi sem er í desember.   

  3. Niðurstöður starfshóps um breytingar á lögum KSÍ.
    • Gísli Gíslason skýrði niðurstöðu starfshópsins frekar fyrir stjórn.  Málið verður skoðað áfram og rætt á næsta stjórnarfundi.
    • Í framhaldi af umræðu um lagabreytingar var rætt um þátttökugjöld í meistaraflokki á komandi tímabili og var Gísla Gíslason falið að vinna að málinu.

  4. Gísli Gíslason formaður laga-og leikreglnanefndar kynnti tvær tillögur að breytingum á reglugerðum KSÍ, annars vegar breytingu á reglugerð KSÍ um knattspyrnudómara  og eftirlitsmenn (tillaga frá dómaranefnd KSÍ) og reglugerð KSÍ um knattspyrnumót (tillaga frá mótanefnd KSÍ). 

    • Það sem lagt er til að falli út er rauðmerkt:
    • Það sem lagt er til að verði fært inn er grænmerkt

      Tillaga til breytinga á grein 4.6. í reglugerð KSÍ um knattspyrnudómara og eftirlitsmenn: 

      Tillagan hljóðar svona:
      Lagt er til að stjórn KSÍ samþykki fella úr gildi ákvæði 4.6. í reglugerð KSÍ um knattspyrnudómara og eftirlitsmenn með eftirfarandi hætti:

      REGLUGERÐ KSÍ  um knattspyrnudómara og eftirlitsmenn
      4. gr.  Landsdómarar
      4.1. Landsdómari getur hver sá orðið, sem tilnefndur er af dómaranefnd KSÍ, hefur starfað sem héraðsdómari síðastliðin 2 ár og sannar hæfni sína í verki með því að dæma að minnsta kosti 1 leik að viðstöddum fulltrúa dómaranefndar KSÍ. 
      4.2.  Dómaranefnd KSÍ velur árlega deildardómara úr hópi landsdómara og skulu þeir einir dæma leiki í Pepsideild, 1. og 2. deild karla, Pepsi-deild kvenna, Meistarakeppni KSÍ, bikarkeppnum meistaraflokka karla (aðalkeppni) og kvenna (frá og með 8 liða úrslitum) og úrslitaleiki í landsmótum og bikarkeppnum KSÍ.   
      4.3.  Dómaranefnd velur einnig sérhæfða aðstoðardómara úr hópi landsdómara.  Þeir skulu starfa oftar sem aðstoðardómarar en sem dómarar. Þeir hafa einnig rétt til að dæma alla leiki nema í Pepsi-deild og 1. deild karla.   
      4.4.   Landsdómarar skulu gangast undir og standast skriflegt próf í dómarafræðum og regluleg  þolpróf skv. ákvörðun dómaranefndar KSÍ.   
      4.5.   Milliríkjadómarar skulu standast kröfur FIFA fyrir milliríkjadómara. Dómaranefnd KSÍ er heimilt að auka kröfur til dómara í Pepsi-deild til samræmis við þær kröfur FIFA  
      4.6.  Starfstíma deildardómara lýkur ekki síðar en í lok þess árs, sem hann verður fimmtugur.   

      Greinargerð: 
      Á Norðurlöndunum hafa þessar aldurstakmarkanir verið felldar niður. Í stað aldurstakmarkana eru notuð stöðluð þrekpróf frá FIFA sem dómararnir þurfa að standast. 

      Tillaga til breytinga á grein 13 í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót:

      Tillagan hljóðar svona:
      Lagt er til að stjórn KSÍ samþykki breytingar á 13.4. í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót:

      REGLUGERÐ KSÍ  um knattspyrnumót
      13.1. Aðildarfélög KSÍ eiga rétt á að taka þátt í öllum opinberum knattspyrnumótum nema mótareglur kveði á um annað.
      13.2.  Í landsmótum getur aðeins tekið þátt eitt lið frá hverju félagi í hverju móti,  nema mótareglur kveði á um annað.
      13.3.  Stjórn KSÍ skal í samráði við mótanefnd ákveða þátttökugjöld í mótum á vegum KSÍ.
      13.4.  Þátttökutilkynningar í landsmótum skulu berast skrifstofu KSÍ á sérstökum eyðublöðum fyrir 10. janúar. 20. janúar. Félög sem rétt eiga til þátttöku í landsdeildum meistaraflokks skulu þó staðfesta þátttöku sína þar með formlegum hætti fyrir 1. nóvember árið áður. Þátttökutilkynningar verða ekki teknar til greina nema nauðsynlegar upplýsingar fylgi skv. reglugerðum KSÍ og fyrirmælum mótanefndar, sem og helmingur þátttökugjalda, helmingur heildargjalds vegna ferða- og uppihaldskostnaðar dómara- og aðstoðardómara vegna leikja í deildakeppni (ef við á) og ógreiddar skuldir fyrra árs. Eftirstöðvar þessara gjalda skal inna af hendi eigi síðar en 30. apríl sama ár ella hefur þátttökutilkynningin ekki verið staðfest. 

      Greinargerð: 
      Mót eru farin að hefjast mun fyrr en þegar ákvæðið var sett á sínum tíma. Vegna vinnu mótanefndar við niðurröðun leikja er betra að félög staðfesti þátttöku sína fyrr.

      Stjórn KSÍ samþykkti reglugerðarbreytingarnar.

  5. Skipurit skrifstofu
    • Framkvæmdastjóri KSÍ kynnti skipurit skrifstofunnar sem hefur tekið nokkrum breytingum frá síðustu umræðu á stjórnarfundi í apríl.   Fjórir sóttu um um stöðu yfirmanns knattspyrnumála og hafa þrír umsækjendur þá menntun sem gerð var krafa um.  Stjórn KSÍ ákvað að kynna málið frekar fyrir aðildarfélögum sínum áður en lengra er haldið og verður það kynnt á formanna- og framkvæmdastjórafundi KSÍ 24. nóvember og einnig á vinnustofu í tengslum við ársþing.  Ennfremur mun koma fram í greinargerð með fjárhagsáætlun 2019 að gert sé ráð fyrir þessari stöðu í fjárhagsáætlun.  Framkvæmdastjóra og formanni var falið  að senda umsækjendum upplýsingar um að staðan sé enn til umfjöllunar og verði fram yfir ársþing.

  6. Ársþing
    • Rætt var um setningu ársþings, sem hefur flest undanfarin ár verið kl. 11:00.  Stjórn samþykkti að hefja þingstörf kl. 10:00.
    • Rætt um dagskrá í tengslum við þingið.  Gert er ráð fyrir stjórnarfundi kl. 13:00 föstudaginn 8. febrúar og opnu málþingi frá ca. 16:00.  Guðrúnu Ingu Sívertsen varaformanni og Klöru Bjartmarz framkvæmdastjóra var valið að undirbúa tillögu að dagskrá málþingsins.

  7. Mótamál
    • Búið að gefa út niðurröðun í Lengjubikarnum og undirbúningur niðurröðunar fyrir önnur mót stendur yfir.
    • Huginn og Höttur hafa tilkynnt að félögin munu tefla fram sameiginlegu liði  félaganna í 3. deild karla á komandi keppnistímabili og er því laust sæti í deildinni.  Stjórn hefur mótttekið erindi frá Knattspyrnudeildum Álftanes og Ægis um málið.
    • Niðurstaða mótanefndar um málið:


      Tillaga mótanefndar um flutning liðs í 3. deild karla 2019
      Þar sem Huginn teflir fram sameiginlegu liði með Hetti næsta keppnistímabil, þarf að flytja eitt lið úr 4. deild karla í 3. deild karla. Valið stendur á milli Álftaness og Ægis.

      Álftanes 
      Varð sigurvegari í sínum riðli í 4. deildinni 2018 og endaði í 4. sæti deildarinnar.

      Ægir
      Endaði í neðsta sæti 3. deildar 2018.

      Reglugerðin
      Vegna fjölgunar í 3. deild karla 2019 úr 10 liðum og í 12 lið var farin sú leið að láta liðið í 3. sæti 4. deildar 2018 flytjast upp og láta liðið í 9. sæti 3. deildar 2018 halda sæti sínu. Neðangreint ákvæði tekur því ekki nákvæmlega á ofangreindu tilviki:

      23.1.11. Ef lið dregur sig úr eða er vísað úr keppni, má það hefja þátttöku í 4. deild á næsta leikári. Ef um er að ræða lið í Pepsi-deild, 1., 2. eða 3. deild, skal almenna reglan vera að liðið í 3. sæti næstu deildar fyrir neðan flytjast upp um deild. Ef slíkt er afleiðing þess að þátttökuleyfi hefur ekki verið veitt eða dregið tilbaka samkvæmt leyfiskerfi KSÍ, skal þó farið eftir næstu grein, 23.1.12

      Ætla má að ofangreint ákvæði hafi verið sett til þess að festa þá almennu reglu í sessi að flytja eigi lið upp um deild þegar taka þarf ákvörðun um flutning liðs milli deilda í tilfellum þegar lið hættir þátttöku, en að staða liða sem falla breytist ekki.
      Við fjölgunina í 3. deild 2019 var sett sérregla um að eitt lið úr 4. deild bættist við í 3. deild og lið í 9. sæti 3. deildar heldur sæti sínu.  Með vísan til almennu reglunnar um að hætti lið þátttöku þá komi í þess stað lið úr neðri deild sem næst er því að færast á milli deilda. 
      Það er mat mótanefndar að andi ákvæðisins styðji það að flytja beri lið upp úr deildinni fyrir neðan og því beri Álftanesi, sem varð í 4. sæti 4. deildar að færast í 3. deild.


      Stjórn KSÍ samþykkti að Álftanes taki sæti í 3. deild karla 2019. 

  8. Reglugerð um leyfiskerfi KSÍ 
    • Í framhaldi af síðasta stjórnarfundi KSÍ var ný reglugerð KSÍ um leyfiskerfið samþykkt á rafrænan hátt.  Þessar breytingar hafa þegar verið kynntar aðildarfélögum KSÍ í dreifibréfi og á samráðsfundum.
    • Tveir stjórnarmenn KSÍ bókuðu fyrirvara á samþykkt sinni á reglugerðinni:

      Ingi Sigurðsson: 
      „Samþykki umræddar breytingar á leyfisreglugerð KSÍ með þeim fyrirvara að breytingarnar séu ekki fjárhagslega íþyngjandi fyrir aðildarfélög sambandsins né sambandið sjálft, nema því fylgi aukið fjármagn frá UEFA til að standa undir slíkum viðbótarkostnaði“.

      Valgeir Sigurðsson: 
      „Samhliða því að stjórn KSÍ samþykkir þær breytingar sem liggja fyrir er Leyfiskerfið varðar þá mun stjórnin jafnfram óska eftir samtali við UEFA um sérstöðu og hagsmuni íslenskra félagsliða í tengslum við Leyfiskerfið og þróun þess“.

      Formaður KSÍ, Guðni Bergsson hefur þegar tekið málið upp á formannafundi Norðurlandanna og er stjórn sammála því að fylgja málinu frekar eftir gagnvart UEFA.     

  9. Landsliðsmál
    • Lögð var fram til kynningar skýrsla um úrslit leikja frá síðasta stjórnarfundi.
    • Gengið hefur verið frá endurnýjun samninga við Þórð Þórðarson landsliðsþjálfara U19 kvenna, Jörund Áka Sveinsson U17 kvenna og Þorvald Örlygsson U19 karla.  Davíð Snorri Jónasson landsliðsþjálfari U17 karla á ár eftir af samningi sínum við KSÍ.  Þorlákur Árnason hefur ákveðið að hverfa til annarra starfa erlendis og því er starf við hæfileikamótun KSÍ laust. 
      Stjórn KSÍ samþykkti að auglýsa starfið laust til umsóknar og mun framkvæmdastjóri hafa umsjón með ráðningarferlinu.

  10. Mannvirkjamál
    • Ingi Sigurðsson formaður mannvirkjanefndar KSÍ kynnti umræðu sem fram fór á fundi mannvirkjanefndar fyrr í dag:
      • Rætt var um ákvæði í reglugerð um flóðljós á knattspyrnuvöllum en núverandi reglugerð gerir kröfu um 500 lux á leikjum hér heima.  Í leikjum á vegum UEFA þegar komið er í 3. umferð er gerð krafa um 800 lux.  Mannvirkjanefnd telur rétt að halda kröfu um ljósmagn í leikjum innanlands en skýra þurfi ákvæði í reglugerð betur og ítreka fyrir þeim félögum sem leika í Evrópukeppnum félagsliða að krafa í skilgreindum leikjum sé 800 lux.
      • Rætt um kröfu frá UEFA um að mörk séu steypt niður.  Nefndin og stjórn eru sammála um að uppfæra þarf reglugerð KSÍ til samræmis, enda er hér um öryggisatriði að ræða.
      • Rætt um öryggissvæði í knatthúsum og munu þau verða óbreytt.
      • Rætt um stærð búningsklefa í nýbyggingum og að þeir séu að lágmarki fyrir 25 manns. Í þeim tilvikum þar sem um er að ræða samnýtingu tveggja klefa með sameiginlegri sturtuaðstöðu  þá er krafan sú að annar klefinn sé með sætispláss fyrir 20 manns.
      • Reglugerð verður uppfærð í samræmi við ofangreint.
    • Ingi Sigurðsson formaður mannvirkjanefndar KSÍ kynnti tillögu nefndarinnar um breytingar á reglugerð KSÍ um mannvirkjasjóð.  Málið verður lagt til afgreiðslu á næsta stjórnarfundi þegar fundargerð mannvirkjanefndar liggur fyrir.
    • Stjórn hefur borist umsókn frá Magna um vilyrði fyrir styrk vegna mannvirkjasjóðs 2019.  Stjórn samþykkti að veita Magna vilyrði fyrir styrk úr Mannvirkjasjóði að lágmarki 8 m.kr. árið 2019 með með fyrirvara um að framkvæmdin uppfylli kröfur leyfiskerfis KSÍ. Ákvörðun um fjárhæð styrks er háð fyrirvara um niðurstöðu úthlutana úr mannvirkjasjóði

  11. Heimsóknir til aðildarfélaga
    • Guðrún Inga Sívertesen varaformaður kynnti nokkur atriði sem hafa verið áberandi í heimsóknum til aðildarfélaga, til dæmis vallarstærð 4. flokks, lágmarksaldur dómara og heimsóknir landsliðsfólks til aðildarfélaga.  Stjórn samþykkti að hafa eina málstofu fyrir ársþing tileinkaða rauða þræðinum í heimsóknum til aðildarfélaganna. 
    • Stjórn sammála mikilvægi þess að ljúka heimsóknum til þeirra félaga sem eftir standa fyrir komandi ársþing.

  12. Markaðsmál
    • Guðni Bergsson formaður kynnti tillögur um nýja vörumerkjalínu sambandsins.  Stjórn var jákvæð gagnvart framtakinu og verður unnið áfram að málinu.   

  13. Framlög til aðildarfélaga
    • Guðni Bergsson formaður og Valgeir Sigurðsson stjórnarmaður hafa rætt við ÍTF um aukið umfang bakhjarlasamninga KSÍ og sú hugmynd hefur verið rædd að aðildarfélögum verði greitt ákveðið hlutfall af innkomu vegna bakhjarla- og vörumerkjasamninga með fyrirvara um rekstarafkomu sambandsins.  Hugmyndin er að þetta framlag renni til aðildarfélaga KSÍ  í fyrirfram skilgreind verkefni, til dæmis markaðsstarf eða starfs yfirþjálfara.  Ákvörðun um málið var frestað.

  14. Önnur mál
    • Guðrún Inga Sívertsen spurði um stöðuna á Laugardalsvelli.  Formaður upplýsti að málið hafði verið á  dagskrá borgarráðs fyrr í dag.
    • Guðrún Inga upplýsti stjórn um góðgerðarleik Fylkis fyrir Tómas Inga Tómasson aðstoðarþjálfara U21 karla en hann hefur glímt við erfið veikindi undanfarið ár.  Stjórn styður verkefnið heilshugar.
    • Rætt var um formanna-og framkvæmdastjórafund KSÍ sem fram fer 24. nóvember og dagskrá lögð fram.
    • Stjórn samþykkti óbreytt fyrirkomulag leikmannavals KSÍ, þ.e. rafræna kosningu og var framkvæmdastjóra falið að hrinda valinu í framkvæmd.
    • Stjórn samþykkti að skipa Þorvald Ingimundarson í samráðshóp Mennta-og menningarmálaráðuneytisins um hagræðingu úrslita.
    • Lagt var fram erindi frá Mennta-og menningarmálaráðuneytinu þar sem óskað er eftir umsögn KSÍ um samning ráðherraráðs Evrópuráðsins um samhæfða nálgun um öryggi og aðstöðu á knattspyrnuvöllum sem til stendur að fullgilda á Íslandi.  Stjórn samþykkti að fela framkvæmdastjóra og öryggisstjóra KSÍ að ganga frá umsögninni. 

Fleira var ekki á dagskrá og var fundi slitið kl. 20:00. 

Fundargerð á pdf formi