• fös. 21. mar. 2025
  • Landslið
  • A karla

2-1 tap í fyrri leiknum við Kósovó

A landslið karla tapaði með einu marki í fyrri umspilsleiknum við Kósóvó, en liðin mættust í Pristina á fimmtudagskvöld. Lokatölur leiksins voru 2-1 heimamönnum í vil og þarf íslenska liðið því að vinna upp eins marks forskot þegar liðin mætast á ný í Murcia á Spáni á sunnudag.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í leiknum þó Kósovóar hafi átt fleiri marktilraunir. Kósovóska liðið tók forystuna á 19. mínútu með skoti rétt utan við teig, en Orri Óskarsson, nýbakaður fyrirliði íslenska liðsins, jafnaði metin tveimur mínútum síðar þegar hann komst einn í gegn eftir frábæra sendingu frá Ísak B. Jóhannessyni. Orri lék framhjá markmanni Kósovó og setti boltann í netið.

Sigurmark heimamanna kom á 58. mínútu, einnig með skoti rétt fyrir utan teig. Sem fyrr segir mætast liðin að nýju á sunnudag kl. 19:45 að íslenskum tíma og er búist við um eitt þúsund Íslendingum á leikinn, sem verður í beinni útsendingu og opinni dagskrá á Stöð 2 sport.

A landslið karla