Átján landsleikir í mars og apríl
Það er nóg um að vera í starfi landsliðanna um þessar mundir. Í marsmánuði t.a.m. leika landsliðin alls 13 leiki, þar af 10 á dagabilinu 19.-25. mars, og fimm leikir fara fram dagana 2.-8. apríl.
U17 kvenna lék þrjá leiki í byrjun mars, U17 og U19 karla leika þessa dagana þrjá leiki hvort lið um sig, A karla leikur tvo leiki og U21 karla einnig tvo. Í byrjun apríl leikur U19 kvenna síðan þrjá leiki og A kvenna tvo leiki.
A landsliðin
A landslið karla mætir Kósovó í tveggja leikja umspili um sæti í B-deild Þjóðadeildar UEFA. Fyrri leikurinn fer fram í Pristina í Kósovó 20. mars (í kvöld) og sá seinni í Murcia á Spáni 23. mars. Báðir leikir eru í beinni útsendingu og opinni dagskrá á Stöð 2 spor.
A landslið kvenna mætir Noregi og Sviss í byrjun apríl í A-deild Þjóðadeildar UEFA og fara báðir leikir fram á Þróttarvelli í Reykjavík. Leikirnir, sem verða leiknir 4. og 8. apríl, eru í beinni útsendingu á RÚV.