Undirbúningur fyrir leiki við Kósovó hafinn
A landslið karla er komið saman á Spáni til æfinga og undirbúnings fyrir komandi umspilsleiki við Kósovó. Fyrsta æfing íslenska liðsins undir stjórn Arnars Gunnlaugssonar, nýs landsliðsþjálfara, fór fram í dag.
Íslenska liðið mætir liði því kósovóska í tveimur leikjum um sæti í B-deild Þjóðadeildar UEFA. Fyrri leikurinn fer fram í Pristina í Kósovó 20. mars og seinni leikurinn, eiginlegur heimaleikur Íslands, fer fram í Murcia á Spáni 23. mars.
Báðir leikir eru í beinni útsendingu og opinni dagskrá á Stöð 2 sport.
Ísland og Kósovó hafa tvisvar mæst áður. Það var í undankeppni HM 2018 þar sem íslenska liðið vann sigur í báðum viðureignum. Aron Einar Gunnarsson, Arnór Ingvi Traustason og Sverrir Ingi Ingason, sem allir eru í íslenska hópnum fyrir umspilsleikina sem eru framundan, voru með íslenska liðinu í þeim leikjum, og einnig Jóhann Berg Guðmundsson, sem getur ekki verið með nú vegna meiðsla.