Breytingar á knattspyrnulögunum 2025
Stjórn KSÍ samþykkti á fundi sínum 13. mars að innleiða komandi breytingar á knattspyrnulögunum frá og með fyrsta leik í Mjólkurbikar KSÍ 2025. Breytingarnar taka þannig gildi frá 28. mars, þegar 1. umferð Mjólkurbikars karla hefst.
Fyrsta umferð Mjólkurbikars karla 2025
Hér að neðan má sjá yfirlit þeirra breytinga sem gerðar eru á knattspyrnulögunum og taka strax gildi 28. mars.
Knattspyrnulögin 2025/26 - Yfirlit lagabreytinga (PDF)
Knattspyrnulögin 2025/26 - Yfirlit lagabreytinganna
3. grein – Leikmennirnir
Mótshaldarar hafa heimild til þess að innleiða fyrirmælin um “Einungis fyrirliðinn”.
Skýring
Mótshaldarar eru hvattir til þess að innleiða “Einungis fyrirliðinn” ákvæðin til þess að bæta hegðun leikmanna innan vallar og til að efla samvinnu og styrkja tengslin á milli leikmannanna og dómarans. Dómaranefnd KSÍ innleiddi þessi ákvæði við upphaf Lengjubikarsins 2025. Þau hafa einnig þegar tekið gildi í öllum mótum á vegum UEFA.
5. grein – Dómarinn
Merkjagjöf sem dómari notar til þess að telja niður síðustu fimm sekúndurnar af þeim átta sem markvörðurinn hefur til þess að koma boltanum í leik eftir að hafa náð valdi á honum með höndum/handleggjum sínum.
Skýring
Dómari lyftir handleggnum upp (eins og við rangstöðu) og telur niður með fingrum sínum síðustu fimm sekúndurnar af þeim átta sem markvörðurinn hefur til þess að koma boltanum í leik eftir að hann hefur náð á honum valdi.
8. grein – Upphaf leiks og leikur hafinn að nýju
Ef boltinn var, þegar leikurinn var stöðvaður:
• innan vítateigs – er boltinn látinn falla hjá markverði varnarliðsins í hans eigin vítateig.
• utan vítateigs – er boltinn látinn falla hjá leikmanni liðsins sem hefur vald á, eða hefði að mati dómarans augljóslega náð valdi á boltanum; annars er hann látinn falla hjá leikmanni liðsins sem síðast snerti hann. Boltinn er látinn falla á þeim stað sem hann var þegar leikur var stöðvaður.
Skýring
Fyrir kemur að boltinn hefði augljóslega borist til liðsins sem er mótherji þess sem síðast snerti hann. Í slíkum tilfellum er sanngjarnara að boltinn sé látinn falla hjá liðinu sem hefði náð valdi á boltanum, svo fremi sem það sé dómaranum augljóst. Utan vítateigs er boltinn nú látinn falla á þeim stað sem hann var þegar leikur var stöðvaður.
9. grein – Boltinn í og úr leik
Óbein aukaspyrna er dæmd án viðlagðrar agarefsingar ef forráðamaður liðs, varamaður eða leikmaður sem skipt hefur verið eða vísað af leikvelli, eða leikmaður sem er tímabundið utan leikvallar, snertir boltann á leið hans út af og ekki var ásetningur að trufla leikinn með óheiðalegum hætti.
Skýring
Fyrir kemur að t.d. þjálfari, varamaður eða leikmaður sem er tímabundið utan leikvallar snerti boltann á leið hans út af í þeim tilgangi að hjálpa til við að leikur geti hafist sem fyrst að nýju. Í slíkum tilfellum er dæmd óbein aukaspyrna án viðlagðrar agarefsingar, nema að sú agarefsing sé vegna þess að viðkomandi sé ítrekað að yfirgefa boðvanginn.
11. grein – Rangstaða
Þegar markvörðurinn kastar boltanum ber að nota lok snertingar handar/handleggs hans við boltann við mat á rangstöðu.
Skýring
Upphaf snertingar við boltann (spyrnu) er notað við mat á rangstöðu leikmanns. Þegar markvörður hins vegar kastar boltanum skal nota lok snertingar hans við boltann þar sem það veitir skýrari og samræmdari viðmiðunarpunkt.
12. grein – Leikbrot og óviðeigandi hegðun
Ef markvörður heldur valdi á boltanum með höndum/handleggjum sínum í meira en átta sekúndur skal mótherjunum dæmd hornspyrna.
Skýring
Ef markvörður hefur vald á boltanum í hönd(um)/handlegg(jum) sér í meira en átta sekúndur mun dómarinn nú dæma hornspyrnu (í stað óbeinnar aukaspyrnu) þeim megin vallar sem er nær staðsetningu markvarðarins þegar honum er refsað. Engin agarefsing fylgir nema markvörðurinn gerist sekur um að endurtaka slík brot.
Til að auðvelda markverðinum mun dómarinn gefa síðustu fimm sekúndurnar til kynna með uppréttum handlegg.
16. grein – Markspyrna og 17. grein - Hornspyrna
Bætt við tilvísunum í aðrar lagagreinar sem fjalla um atvik sem leiða til þess að markspyrna eða hornspyrna er dæmd.
Skýring
Þarfnast ekki skýringa við.
Sjá einnig:
Mynd: Helgi Halldórsson.