• mið. 08. jan. 2025
  • Landslið
  • A kvenna
  • EM 2025

Miðasala á EM 2025 - Þriðji hluti:  "Fan of Iceland"

Þriðji og síðasti hluti miðasölu á EM A landsliða kvenna 2025 í Sviss til stuðningsmanna Íslands, hefst kl. 12:00 fimmtudaginn 9. janúar. Um er að ræða miðasölu sem er opin öllum sem skráðir eru "Fan of Iceland" í miðasölukerfi UEFA.

Fyrstu tveir hlutar miðasölunnar hafa gengið mjög vel og nokkuð fljótt varð uppselt í svæði íslenskra stuðningsmanna á leik Íslands og Noregs (10. júlí). Nýlega varð svo uppselt í það svæði á leik Íslands og Finnlands (2. júlí). UEFA hefur nú upplýst KSÍ um að miðum til stuðningsmanna Íslands hafi verið fjölgað og því eru lausir miðar á alla leiki Íslands í miðasölunni sem hefst á fimmtudag. Engu að síður má búast við að miðar á leikina tvo í Thun (gegn Finnlandi og Noregi) seljist fljótt.

Miðasalan sem hefst á fimmtudag verður opin þeim sem skráð eru "Fan of Iceland" til kl. 12:00 fimmtudaginn 16. janúar, eða á meðan miðar endast. Hafa ber í huga að þó svo miðar í stuðningsmannasvæði Íslands seljist upp, þá þýðir það ekki að uppselt sé á leikina. Almenn miðasala á alla leiki keppninnar (opin öllum, fyrstur kemur-fyrstur fær) hefst síðan um miðjan febrúar á miðasöluvef UEFA og fara þá allir þeir miðar sem eru óseldir og/eða hefur ekki verið ráðstafað í almenna sölu.

Öll miðasala fer fram í gegnum miðasöluvef UEFA - smelltu hér til að komast inn á miðavefinn. Samkvæmt skilmálum UEFA um miðakaup getur hver notandi mest keypt samtals 10 miða á hvern leik í mótinu. Ef notandinn hefur t.d. þegar keypt 4 miða í fyrri miðasöluglugga, þá getur viðkomandi mest keypt 6 miða í þessum þriðja hluta.