• fös. 29. nóv. 2024
  • Landslið
  • A karla

Murcia í mars

Sem kunnugt er mætir A landslið karla Kósovó í umspili um sæti í B deild Þjóðadeildar UEFA í mars 2025.  KSÍ getur nú staðfest að "heimaleikur" Íslands verður leikinn á Estadio Enrique Roca í Murcia á Spáni þann 23. mars næstkomandi. Fyrri leikurinn fer fram á Fadil Vokrri leikvanginum í Pristina, höfuðborg Kósovó þann 20. mars og leikurinn í Murcia þremur dögum síðar.

Leikvangurinn í Murcia, sem tekur ríflega 30 þúsund áhorfendur, var opnaður árið 2006 með vináttulandsleik milli Spánar og Argentínu.  Um er að ræða heimavöll Real Murcia CF sem leikur í þriðju efstu deild Spánar um þessar mundir, en þar fara einnig af og til fram landsleikir, og nefna má að A landslið karla lék einmitt vináttuleik á þessum leikvangi í mars 2022 þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Finnland.  Estadio Enrique Roca de Murcia er staðsettur í bænum Churra, sem liggur rétt norðan við Murcia, og er leikvangurinn í u.þ.b. 7 kílómetra fjarlægð frá miðbæ Murcia. 

KSÍ vinnur nú að því að undirbúa miðasölu á leikinn og verða upplýsingar birtar á miðlum KSÍ um leið og þau mál skýrast.

A landslið karla