Ísland mætir Wales í Cardiff á þriðjudag
A landslið karla mætir Wales í í Cardiff í lokaleik sínum í Þjóðadeildinni á þriðjudag. Leikurinn hefst kl. 19:45 að íslenskum tíma og er í beinni útsendingu og opinni dagskrá á Stöð 2 Sport.
Eftir úrslit laugardagsins er Tyrkland efst í riðlinum með 11 stig, Wales í öðru með níu stig, Ísland með sjö stig og Svartfjallaland án stiga og fallið í C deild. Leikur Íslands og Wales er eiginlegur úrslitaleikur um annað sætið, sem gefur sæti í umspili um sæti í A deild, en rétt er að geta þess að Wales á enn möguleika á að vinna riðilinn og fara beint upp í A deild. Liðið sem endar í þriðja sæti fer í umspil um fall í C deild. Í öllu falli er ljóst að Ísland leikur í öðru hvoru umspilinu í mars.
Ísland hefur einu sinni unnið Wales í 8 viðureignum í A landsliðum karla. Sá sigur kom á Laugardalsvelli í undankeppni HM 1986 og skoraði Magnús Bergs eina mark leiksins. Þetta reyndust einu stig íslenska liðsins í fjögurra liða riðli, þar sem einnig voru lið Skotlands og Spánar.
Liðin mættust í Þjóðadeildinni í ár á Laugardalsvelli í september og lauk þeim leik með 2-2 jafntefli þar sem íslenska liðið lenti tveimur mörkum undir í fyrri hálfleik en náði að jafna metin í þeim seinni.