Sigur í Svartfjallalandi
A karla vann góðan 2-0 sigur gegn Svartfjallalandi í Þjóðadeildinni.
Leikurinn var nokkuð jafn í fyrri hálfleik á erfiðum vellinum í Niksic í Svartfjallalandi. Ísland skapaði sér betri færi, en mark var dæmt af heimamönnum.
Seinni hálfleikur var svipaður, nokkuð jafn, en lítið um opin færi. Það var svo á 74. mínútu sem Orri Steinn Óskarsson skoraði fyrsta mark leiksins eftir góða sókn. Tveimur mínútum fyrir leikslok bætti svo Ísak Bergmann Jóhannesson við öðru marki Íslands og góður sigur staðreynd. Tyrkland og Wales gerðu á sama tíma markalaust jafntefli í Tyrklandi. Þetta þýðir að Tyrkland er efst í riðlinum með 11 stig, Wales í öðru með níu stig, Ísland með sjö stig og Svartfjallaland án stiga og fallið í C deild.
Ísland mætir Wales á þriðjudaginn í Cardiff í úrslitaleik um annað sætið, en það gefur sæti í umspili um sæti í A deild, en liðið sem endar í þriðja sæti fer í umspil um fall í C deild.