• fös. 12. júl. 2024
  • Landslið
  • A kvenna
  • EM 2025

Þriggja marka sigur á Þýskalandi

A landslið kvenna er öruggt með sæti á EM 2025 í Sviss eftir magnaðan þriggja marka sigur á stórliði Þýskalands á Laugardalsvellinum að viðstöddum 5.243 áhorfendum, sem studdu íslenska liðið dyggilega allan leikinn.  Þessi glæsilegu úrslit þýða sem fyrr segir að fimmta EM-sætið í röð er í höfn og þýða jafnframt að Ísland á möguleika á að hafna í efsta sæti riðilsins í Þjóðadeildinni.  Til að það geti gerst þarf Ísland að vinna Pólland ytra í lokaumferðinni á þriðjudag og treysta á að Þýskaland vinni ekki Austurríki.  Ísland myndi þá taka efsta sætið á betri innbyrðis árangri í viðureignum Íslands og Þýskalands.

Ingibjörg Sigurðardóttir skoraði fyrsta mark leiksins með skalla á 14. mínútu og reyndist það eina mark fyrri hálfleiks.  Í seinni hálfleik refsaði íslenska liðið því þýska í tvígang eftir mistök í þýsku vörninni.  Fyrst skoraði Alexandra Jóhannsdóttir með hnitmiðuðu langskoti utan teigs á 52. mínútu eftir að Sveindís Jane Jónsdóttir vann boltann og það var svo Sveindís sem innsiglaði þriggja marka íslenskan sigur á 83. mínútu þegar hún komst inn í þýska sendingu á vítateig og kláraði færið með góðu skoti.

Í hinum leik riðilsins vann Austurríki 3-1 sigur á Póllandi og því er ljóst að Austurríki hafnar í þriðja sæti riðilsins, en Pólland fellur í B-deild.

A landslið kvenna

Mynd:  Hulda Margrét