• þri. 18. jún. 2024
  • Mannvirki

Umsóknir um styrki úr mannvirkjasjóði 2024

Mannvirkjasjóði KSÍ er ætlað að styðja við nýframkvæmdir, endurbætur og skilgreind viðhaldsverkefni knattspyrnumannvirkja á Íslandi, til að skapa iðkendum, áhorfendum, starfsfólki og stjórnendum sem besta aðstöðu.

KSÍ auglýsir hér með eftir umsóknum frá aðildarfélögum um styrki úr mannvirkjasjóði KSÍ 2024. Umsóknir þurfa að berast KSÍ eigi síðar en 31. júlí næstkomandi, til Fannars Helga Rúnarssonar, starfsmanns mannvirkjanefndar (fannar@ksi.is).

Vakin er athygli á því að um er að ræða umsókn og úthlutun fyrir árið 2024 eingöngu. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um framhald mannvirkjasjóðs fyrir komandi ár. Heildarúthlutun ársins 2024 verður allt að kr. 30.000.000 samkvæmt ákvörðun stjórnar KSÍ.

Í umsókninni þarf að koma fram hver umsækjandinn er og hver sé dagsetning umsóknar, hvert verkefnið er, ásamt áætluðum verklokum og áætluðum heildarkostnaði. Við mat á umsóknum og úthlutun verður stuðst við reglugerð og skorkort fyrir árin 2020-2023. Nánari útlistun er hér að neðan.

Í reglugerð um úthlutun styrkja úr mannvirkjasjóði KSÍ (fyrir árin 2020-2023) kemur fram að umsóknir skuli vera ítarlegar og vel unnar og þar kemur einnig fram hvaða gögn þurfa að fylgja hverri umsókn:

  • a. Lýsing á fyrirhuguðum framkvæmdum og tilgangi þeirra.
  • b. Verk- og tímaáætlun.
  • c. Sundurliðuð kostnaðaráætlun og teikningar. Gerð er krafa um að sundurliðun kostnaðaráætlunar sé skýr svo hægt sé að taka afstöðu til einstakra verkþátta. Heimilt er að hafna einstökum verkþáttum innan áætlunar.
  • d. Staðfesting á fjármögnun aðildarfélagsins.
  • e. Staðfesting viðkomandi sveitarstjórnar eða eiganda mannvirkis á framkvæmdunum og skuldbindingum þess vegna framkvæmdanna samkvæmt fjárhagsáætlun sveitarfélagsins og samkomulagi sveitarstjórnar og viðkomandi aðildarfélags.
  • f. Önnur gögn sem KSÍ óskar eftir.

Í reglugerðinni kemur eftirfarandi fram varðandi umsóknir:

  • 3.2. Sendi félag ekki nauðsynleg fylgiskjöl skal því gefinn 14 daga frestur til að bæta úr, en hafi nauðsynlegum gögnum ekki verið skilað innan þeirra tímamarka skal hafna umsókn.
  • 3.3. Framkvæmdastjóri KSÍ og mannvirkjanefnd KSÍ yfirfara innsendar umsóknir og gera tillögu til stjórnar um úthlutun úr sjóðnum. Við mat á umsóknum skal m.a. tekið tillit til núverandi stöðu knattspyrnumannvirkja og aðstöðu, og þarfa félags vegna þátttöku í Íslandsmóti og vegna leyfiskerfis KSÍ.
  • 3.4. Við mat á umsóknum verður stuðst við skorkort mannvirkjanefndar, sbr. viðauki A við reglur þessar, þar sem grunnþáttum í forsendum úthlutunar verður gefið vægi. Skorkort þetta, sem unnið er af mannvirkjanefnd KSÍ hverju sinni, er til grundvallar mats á umsóknum og ætlað að raða umsóknum eftir mikilvægi.

Smellið á hlekkinn hér að neðan til að skoða frekari upplýsingar um mannvirkjasjóðinn - reglugerð, skorkort (og myndband um skorkortið) og umsóknareyðublað.

Nánar um mannvirkjasjóðinn