• mán. 10. jún. 2024
  • Landslið
  • A karla

Tap í Rotterdam

Ísland tapaði 0-4 gegn Hollandi í vináttuleik á De Kuip í Rotterdam.

Mótherjar Íslands í seinni vináttuleik liðsins í júní voru Hollendingar, en þetta var síðasti leikur Hollands áður en liðið ferðast í lokakeppni EM í Þýskalandi.

Það var ljóst að Hollendingar ætluðu ekki að fara á EM með tap í farteskinu og Xavi Simons skoraði fyrsta mark leiksins á 23. mínútu eftir góða sókn. Fleiri mörk voru ekki skoruð í fyrri hálfleik og heimamenn leiddu því í hálfleik.

Hollendingar héldu áfram að hafa yfirhöndina í leiknum og Virgil van Dijk skoraði annað mark leiksins í upphafi síðari hálfleiks. Donyell Malen og Wout Weghorst bættu svo við tveimur mörkum á síðustu 20 mínútum leiksins og 0-4 tap því staðreynd fyrir Ísland.

Næsta verkefni liðsins er í september þegar Ísland hefur leik í Þjóðadeild UEFA. Ísland mætir Svartfjallalandi 6. september á Laugardalsvelli áður en það heldur til Tyrklands og mætir heimamönnum þar 9. september.