Tap gegn Þýskalandi
A landslið kvenna tapaði 3-1 gegn Þýskalandi í öðrum leik liðsins í undankeppni EM 2025. Mark Íslands skoraði Hlín Eiríksdóttir.
Þýskaland komst yfir strax á 4. mínútu þegar Lea Shuller skallaði boltann í netið. Ísland jafnaði metin á 34. mínútu þegar Diljá Ýr kom boltanum fyrir markið og Hlín Eiríksdóttir kláraði snyrtilega í markið. Á 30. mínútu varð íslenska liðið fyrir áfalli þegar Sveindís Jane fór meidd af velli. Fjórum mínútum síðar komst Þýskaland aftur yfir og aftur var það Lea Schuller sem skallaði boltann í netið.
Á síðustu sekúndu fyrri hálfleiks skoraði Lena Oberdorf þriðja mark Þjóðverja og staðan því 3-1 þegar flautað var til hálfleiks.
Þrátt fyrir góða vinnu í síðari hálfleik náði Ísland ekki að klóra í bakkann.
Næst á dagskrá eru tveir leikir gegn Austurríki, sá fyrri á útivelli 31. maí og sá seinni á heimavelli þann 4. júní.