Leikið gegn Hollandi í Rotterdam í júní
A landslið karla mætir liði Hollands í vináttuleik sem leikinn verður Feyenoord-leikvanginum í Rotterdam þann 10. júní næstkomandi. Leikurinn er hluti af undirbúningi hollenska liðsins fyrir lokakeppni EM í Þýskalandi. Þar með hafa verið staðfestir tveir júní-leikir íslenska liðsins, sem mætir einnig Englandi á Wembley 7. júní.
Íslenska liðið mætir Ísrael í Búdapest, Ungverjalandi í fyrri umspilsleik um sæti í lokakeppni EM 2024 þann 21. mars. Sigurvegarinn í þeim leik mætir annað hvort Bosníu-Hersegóvínu eða Úkraínu 26. mars í úrslitaleik um sæti í lokakeppni EM 2024 í sumar, en tapliðin mætast í vináttuleik þann dag. Mæti Ísland Bosníu og Hersegóvínu verður leikið í Sarajevo, en verði mótherjinn Úkraína verður leikið í Wroclaw, Póllandi.
Fjórtán sinnum áður hafa Ísland og Holland mæst í A landsliðum karla, þar af voru tveir leikir í undankeppni ÓL 1988. Ísland hefur unnið tvo sigra og eru það einmitt síðustu tvær viðureignir liðanna – báðir leikir í undankeppni EM 2016. Tvisvar hafa liðin skilið jöfn og Hollendingar hafa unnið 10 sinnum.
Fyrri viðureignir Íslands og Hollands í A landsliðum karla
Mynd með grein: Mummi Lú.