• fim. 16. nóv. 2023
  • Landslið
  • A karla
  • EM 2024

4-2 tap í Bratislava

A landslið karla beið í kvöld lægri hlut gegn Slóvakíu í Bratislava þegar liðin mættust í undankeppni EM 204. Lokatölur leiksins voru 4-2 Slóvökum í vil, sem tryggðu sér þar með sæti í lokakeppni EM í Þýskalandi á næsta ári. Íslenska liðið þarf nú að treysta á umspil í mars.

Heimamenn voru sterkari aðilinn í leiknum en það var þó Ísland sem skoraði fyrsta markið og var þar að verki Orri Óskarsson með skalla, hans annað mark fyrir A landsliðið í fimm leikjum. Slóvakía svaraði með tveimur mörkum fyrir hlé.

Seinni hálfleikur byrjaði illa fyrir íslenska liðið og þriðja mark Slóvakíu leit dagsins ljós í upphafi hálfleiksins. Heimamenn náðu að bæta við fjórða markinu áður en Ísland náði að svara með marki frá Andra Lucas Guðjohnsen af stuttu færi. Fleiri urðu mörkin ekki.

Næsti leikur Íslands er gegn Portúgal í Lissabon á sunnudag. Portúgalar eru með fullt hús stiga eftir níu leiki.

A landslið karla