• mán. 16. okt. 2023
  • Landslið
  • A karla

Öruggur sigur gegn Liechtenstein

A landslið karla vann öruggan 4-0 sigur gegn Liechtenstein í undankeppni EM 2024. Leikið var á Laugardalsvelli í kvöld, mánudagskvöld.

Fyrsta mark Íslands skoraði Gylfi Þór Sigurðsson úr vítaspyrnu á 22. mínútu. Með þessu marki jafnaði Gylfi markamet íslenska liðsins sem var 26 mörk. Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks tvöfaldaði Ísland forystuna með marki frá Alfreð Finnbogasyni. Eftir skemmtilegt samspil íslenska liðsins skallaði Willum Þór boltann inn fyrir á Alfreð sem tók góða snertingu áður en hann setti boltann í netið. Í uppbótartíma fengu gestirnir vítaspyrnu. Sandro Wieser fór á punktinn og Elías Rafn Ólafsson varði spyrnuna en Liechtenstein tók frákastið og kom boltanum í netið. Leikmaður Liechtenstein var kominn of fljótt inn í teiginn og því þurfti að endurtaka spyrnuna. Sandro Wieser fór aftur á punktinn en skot hans fór fram hjá markinu.

Ísland hélt uppteknum hætti í síðari hálfleik og skoraði þriðja markið á 49. mínútu. Þar var á ferðinni Gylfi Þór Sigurðsson sem skoraði sitt annað mark í leiknum og það 27. á ferlinum. Þar með bætti Gylfi markamet liðsins. Á 63. mínútu innsiglaði Hákon Arnar Haraldsson sigur Íslands með fjórða marki liðsins.

Eftir leikinn er Ísland með 10 stig eftir átta leiki og situr í 4. sæti riðilsins. Liechtenstein er án stiga á botninum.

Mynd: Mummi Lú