• fös. 13. okt. 2023
  • Landslið
  • A karla

Jafntefli gegn Lúxemborg

A landslið karla tók á móti Lúxemborg í undankeppni EM 2024 á Laugardalsvelli í dag, föstudag.

Ísland komst yfir með marki frá Orra Stein Óskarssyni á 23. mínútu eftir góða fyrirgjöf frá Arnóri Sigurðssyni. Ísland hélt áfram að sækja en fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik.

Síðari hálfleikur byrjaði ekki vel fyrir íslenska liðið. Gerson Rodrigues kom inn á í hálfleik í lið Lúxemborg og innan við mínútu síðar var hann búinn að jafna leikinn.  Á 70. mínútu gerði Åge Hareide, þjálfari Íslands, þrefalda skiptingu og við það fékk liðið aukinn kraft. Þrátt fyrir að sækja af krafti tókst Íslandi ekki að koma inn sigurmarki og jafntefli því niðurstaðan.

Eftir leikinn er Ísland í 5. sæti riðilsins með sjö stig og Lúxemborg í 3. sæti með 11 stig.

Portúgal, sem er í riðli með Íslandi, tryggði sér í kvöld sæti á EM 2024 með 3-2 sigri gegn Slóvakíu.

Mynd: Mummi Lú