Tap í Lúxemborg
A landslið karla tapaði 1-3 gegn Lúxemborg í undankeppni EM 2024, en leikið var á Stade de Luxembourg í Lúxemborg.
Lúxemborg komst yfir snemma í leiknum með marki af vítapunktinum. Bæði lið sköpuðu sér nokkur marktækifæri það sem eftir lifði fyrri hálfleiks, en hvorugu liðinu tókst að skora og staðan því 1-0 fyrir heimamenn í hálfleik.
Síðari hálfleikur var nokkuð tíðindalítill þangað til að Lúxemborg skoraði annað mark leiksins á 70. mínútu. Þremur mínútum síðar var Hörður Björgvin Magnússon rekinn útaf eftir að hafa fengið sitt annað gula spjald.
Hákon Arnar Haraldsson minnkaði muninn þegar tvær mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma, en Lúxemborg gerði út um leikinn mínútu síðar. Tveggja marka tap því staðreynd. Ísland mætir næst Bosníu og Hersegóvínu á mánudag á Laugardalsvelli og hefst leikurinn kl. 18:45.