Hljóta heiðursviðurkenningu fyrir 100 A-landsleiki
Samkvæmt reglugerð KSÍ um landsliðs- og heiðursmerki skal veita þeim leikmönnum sem ná 100 A-landsleikjum heiðursviðurkenningu.
Aron Einar Gunnarsson og Birkir Bjarnason hafa báðir náð 100 leikjum fyrir A landslið karla og afhenti Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ þeim sérvalin málverk eftir Tolla í viðurkenningarskyni fyrir áfangann á hóteli íslenska liðsins, sem undirbýr sig fyrir komandi leiki í undankeppni EM 2024 – heimaleiki gegn Slóvakíu og Portúgal.
Aron Einar Gunnarsson lék fyrsta A-landsleik sinn árið 2008, vináttuleik gegn Belarús og 100-leikja áfanganum náði hann í vináttuleik gegn Sádi-Arabíu í nóvember í fyrra. Aron Einar hefur nú leikið 101 leik fyrir A landsliðið og skorað 5 mörk, þar af eftirminnilega þrennu í 101. leiknum.
Landsleikir - Aron Einar Gunnarsson
Birkir Bjarnason lék fyrst fyrir A landsliðið í vináttuleik við Andorra árið 2010 og lék sinn 100. leik þegar liðið mætti Norður-Makedóníu í september 2021 í undankeppni HM. Birkir hefur nú leikið 113 A-landsleiki fyrir Ísland og skorað 15 mörk, og er hann leikjahæsti leikmaður A landsliðs karla frá upphafi.
Við þetta má bæta að báðir hafa þeir leikið fyrir öll yngri landslið Íslands, og ef öll landslið eru tekin saman hefur Aron Einar leikið 135 landsleiki og landsleikir Birkis eru orðnir 159 talsins.