Åge Hareide nýr þjálfari A landsliðs karla
Mynd með grein: fodboldbilleder.dk
KSÍ hefur ráðið Norðmanninn Åge Hareide sem þjálfara A landsliðs karla.
Hareide er knattspyrnuáhugafólki að góðu kunnur og á að baki langan og árangursríkan feril sem þjálfari nokkurra af stærstu félagsliðum Norðurlanda, auk þess að hafa þjálfað landslið Noregs og Danmerkur um árabil við góðan orðstír. Hareide var við stjórnvölinn hjá norska landsliðinu árin 2003-2008 og stýrði landsliði Danmerkur árin 2016-2020.
Fyrstu leikir íslenska landsliðsins undir stjórn Hareide verða tveir heimaleikir í undankeppni EM 2024 í júní, gegn Slóvakíu og Portúgal.
Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ:
„Åge Hareide er gríðarlega reynslumikill þjálfari sem veit hvað þarf til að ná árangri. Leitin og ráðningaferlið allt gekk tiltölulega hratt fyrir sig enda höfðum við ákveðnar hugmyndir um þann prófíl sem við vildum fá í starfið. Ég er mjög sátt við ráðninguna og bind miklar vonir við góðan árangur A landsliðs karla undir stjórn Åge.“
Åge Hareide, nýr þjálfari A landsliðs karla:
„Ég hef fylgst með íslenska liðinu nokkuð lengi, sérstaklega í kringum árin sem liðið fór á EM 2016 og HM 2018, og ég er fullur tilhlökkunar að takast á við áskorunina að hjálpa liðinu að ná árangri að nýju."
„Ísland á marga sterka leikmenn. Ég hef séð marga þeirra spila fyrir sín félagslið í Skandinavíu og hef líka þjálfað nokkra íslenska leikmenn í gegnum tíðina. Almennt eru þeir áreiðanlegir og vinnusamir, en líka agaðir leikmenn með taktíska greind, og þú þarft þessa eiginleika til að ná árangri í landsliðsfótbolta.“
„Markmið okkar er að komast á EM 2024. Ég man vel eftir íslensku stuðningsmönnunum í Frakklandi 2016. Þeir voru með alveg einstaka stemmningu og ástríðu. Það væri frábært að geta gefið þeim tækifæri til að endurtaka leikinn og við vonumst til þess að stúkurnar verði fullar af fólki á okkar heimavelli í Reykjavík.“
KSÍ býður Åge Hareide velkominn til starfa.