Stórsigur gegn Liechtenstein
Ísland vann 7-0 stórsigur gegn Liechtenstein í öðrum leik sínum í undankeppni EM 2024 og fékk þar með sín fyrstu stig í keppninni.
Davíð Kristján Ólafsson kom Íslandi á bragðið með sínu fyrsta landsliðsmarki á þriðju mínútu leiksins. Næsta mark lét bíða eftir sér en Hákon Arnar Haraldsson kom Íslandi í 2-0 einnig með sínu fyrsta landsliðsmarki.
Í síðari hálfleik fór mörkunum að rigna. Fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson skoraði næstu þrjú mörk liðsins, tvö með skalla eftir hornspyrnu og eitt úr vítaspyrnu. Andri Lucas Guðjohnsen skoraði sjötta mark Íslands á 85. mínútu. Mikael Egill Ellertsson fullkomnaði sigur Íslands með sínu fyrsta landsliðsmarki á 87. mínútu leiksins.