Sigur í vítaspyrnukeppni gegn Litháen
Ísland er komið í úrslit á Baltic Cup 2022 eftir sigur gegn Litháen í vítaspyrnukeppni.
Íslenska liðið var sterkari aðilinn í byrjun, Þórir Jóhann Helgason átti skot í varnarmann úr fínni stöðu og skot Davíðs Kristjáns Ólafssonar fór beint á markvörð Litháa. Ísak Bergmann Jóhannesson og Jóhann Berg Guðmundsson voru báðir nálægt því að skora fyrsta mark leiksins með tveggja mínútna millibili, skot Jóhann Bergs fór yfir og Ísaks Bergmanns rétt framhjá stönginni. Aðeins mínútu seinna fengu Litháar dauðafæri, en Rúnar Alex Rúnarsson varði frábærlega þegar Fedor Cernych komst einn í gegnum vörn Íslands. Hákon Arnar Haraldsson átti svo síðasta færi hálfleiksins, en skalli hans fór yfir markið. Staðan markalus í hálfleik.
Síðari hálfleikurinn var öllu rólegri, hvorugu liðinu tókst að skapa sér teljandi færi. Hörður Björgvin Magnússon fékk sitt seinna gula spjald á 84. mínútu og var því rekinn útaf. Litháar settu mikla pressu á íslensku vörnina eftir það en án árangurs og var því gripið til vítaspyrnukeppni. Ísland skoraði úr öllum sínum sex vítum, en Litháar klúðruðu einu og Ísland því komið áfram í úrslitaleik mótsins.
Liðið ferðast á morgun yfir til Riga í Lettlandi þar sem það mætir heimamönnum í úrslitaleik mótsins á laugardag kl. 14:00 að íslenskum tíma.