Leikið gegn Litháen í dag
A landslið karla mætir Litháen á Darius & Girenas leikvanginum í Kaunas í dag, miðvikudag, í undanúrslitaleik í Baltic Cup, eða Eystrasaltsbikarnum. Leikurinn hefst kl. 17:00 að íslenskum tíma og er í beinni útsendingu á RÚV.
Íslenska liðið mætir síðan annað hvort Eistlandi eða Lettlandi 19. nóvember (í Tallinn eða Riga), sem er þá annað hvort leikur um 3. sætið í mótinu eða úrslitaleikur um sigur í Baltic Cup. Ef jafnt er eftir 90 minútna leik fer fram vítaspyrnukeppni.
Þetta er í fyrsta sinn sem Ísland tekur þátt í mótinu, sem hefur verið haldið reglulega frá árinu 1991. Mótið var sett á laggirnar fyrst árið 1928 og var það haldið nánast árlega til ársins 1940, en frá 1940-1991 fór það ekki fram í ljósi hernáms Sovétríkjanna á svæðinu. Ísland er aðeins fimmta gestaþjóðin sem tekur þátt í mótinu, en Finnland hefur tekið tvisvar sinnum þátt.
Lettland hefur unnið keppnina oftast, eða 13 sinnum. Eistland fagnaði sigri í mótinu árið 2021.
Ísland og Litháen hafa fjórum sinnum áður mæst í A landsliðum karla. Ísland hefur unnið tvo sigra, Litháen einn og einu sinni hafa liðin gert jafntefli. Liðin mættust síðast árið 2003, þegar þau voru saman í riðli í undankeppni EM 2004.