• fim. 10. nóv. 2022
  • Landslið
  • A karla

Mæta Suður-Kóreu á föstudag

A landslið karla mætir Suður-Kóreu í vináttuleik á föstudag.  Leikurinn hefst kl. 11:00 að íslenskum tíma (9 klst tímamismunur er milli Suður-Kóreu og Íslands) og er í beinni útsendingu á Viaplay.  Um er að ræða seinni leikinn í fyrra nóvember-verkefni A karla, en liðið mætti áður Sádi-Arabíu í Abu Dhabi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum þar sem Sádar unnu eins marks sigur.  Íslenski hópurinn í þessum leikjum er að mestu skipaður leikmönnum úr Bestu deildinni þar sem verkefnið er utan FIFA-glugga.

Ísland hefur einu sinni áður mætt Suður-Kóreu í A landsliðum karla, en það var einmitt í janúar á þessu ári þegar liðin mættust í vináttuleik í Tyrklandi, þar sem Suður-Kórea vann 5-1 sigur.  Sveinn Aron Guðjohnsen skoraði mark Íslands í leiknum.  Fimm leikmenn sem eru í íslenska hópnum í leiknum á föstudag léku einnig í janúar.  Hákon Rafn Valdimarsson stóð á milli stanganna í sínum fyrsta leik í byrjunarliði A karla og varði vítaspyrnu.  Aðrir leikmenn í þeim leik sem eru í hópnum nú eru þeir Höskuldur Gunnlaugsson, Damir Muminovic, Viktor Karl Einarsson og Viktor Örlygur Andrason. 

Seinna verkefni liðsins er hins vegar innan FIFA-glugga og var leikmannahópurinn fyrir það verkefni kynntur í vikunni.  Í þeim glugga tekur Ísland þátt sem gestaþjóð í Baltic Cup, þar sem leika Eystrasaltslöndin Eistland, Lettland og Litháen.   Ísland mætir Litháen í Vilnius 16. nóvember og mætir síðan annað hvort Eistlandi eða Lettlandi 19. nóvember, sem er þá annað hvort leikur um 3. sætið í mótinu eða úrslitaleikur um sigur í Baltic Cup. 

Aron Einar Gunnarsson, sem lék sinn 100. A-landsleik þegar Ísland mætti Sádi-Arabíu, verður ekki með íslenska liðinu í leiknum við Suður-Kóreu, en kemur til móts við íslenska hópinn sem kemur saman í Litháen.