Eins marks tap gegn Sádi Arabíu
A karla tapaði 0-1 gegn Sádi Arabíu í vináttuleik sem leikinn var í Abu Dhabi í Sameinuðu arabísku Furstadæmunum.
Eina mark leiksins kom á 25. mínútu leiksins þegar Saud Abdulhamid setti boltann í netið. Sádi Arabíu var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en fá færi litu dagsins ljós og var staðan því sanngjörn þegar fyrri hálfleikur var flautaður af.
Ísland kom af krafti út í síðari hálfleik og var Óttar Magnús Karlsson nálægt því að skora eftir gott spil hjá Rúnari Þór Sigurgeirssyni og Jónatan Inga Jónssyni, en skot hans fór yfir markið. Liðið átti nokkur skot í viðbót í síðari hálfleik en inn vildi boltinn ekki og 0-1 tap staðreynd.
Liðið ferðast nú til Suður-Kóreu og mætir þar heimamönnum í vináttuleik föstudaginn 11. nóvember kl. 11:00 að íslenskum tíma. Leikurinn fer fram á Hwaseong Stadium og verður hann í beinni útsendingu á Viaplay.