Ráðherra íþróttamála ræddi við KSÍ
Ásmundur Einar Daðason, ráðherra íþróttamála, kom í heimsókn í höfuðstöðvar KSÍ á Laugardalsvelli í vikunni ásamt öðrum fultrúum ráðuneytisins og fundaði með formanni KSÍ, Vöndu Sigurgeirsdóttur, og öðrum fulltrúum KSÍ. Farið var í skoðunarferð um mannvirkið og ýmis aðstaða skoðuð, sérstaklega búningsklefar og önnur aðstaða keppenda, og aðstaða sjónvarps og annarra fjölmiðla.
Ýmis málefni voru rædd á fundinum, s.s. Laugardalsvöllur og staða hans m.t.t. aðstöðu þeirra sem leikvanginn nota (keppendur, áhorfendur, fjölmiðlar og aðrir), samfélagsleg verkefni og mögulegt samstarf ríkisins og knattspyrnuhreyfingarinnar, fjármál knattspyrnufélaga og hreyfingarinnar allrar, hagrænt gildi knattspyrnu fyrir samfélagið, styrkir úr afreksíþróttasjóði, og ýmislegt fleira.
Fjallað er um heimsóknina á vef Stjórnarráðsins, þar sem segir m.a. "Ráðherra fagnar "Komdu í fótbolta" verkefni Knattspyrnusambands Íslands sem felur í sér heimsóknir til minni sveitarfélaga um land allt til að efla áhuga iðkenda og styðja við bakið á knattspyrnustarfinu á staðnum. Auka þarf þátttöku barna í viðkvæmri stöðu, barna af erlendum uppruna og aldraðra. Íþróttaiðkun uppfyllir bæði þörf á hreyfingu og þörf á að tilheyra samfélaginu."
Af vef ÍSÍ - "Ráðherra ræðir við íþróttahreyfinguna"
Á mynd með grein (frá vinstri): Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ, Borghildur Sigurðardóttir varaformaður KSÍ, Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra (ráðherra íþróttamála), Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ, Óskar þór Ármannsson teymisstjóri íþrótta í mennta- og barnamálaráðuneytinu (ráðuneyti íþróttamála), Sigfús Ásgeir Kárason varaformaður KSÍ, Arnar þór Sævarsson aðstoðamaður ráðherra.