A karla mætir Ísrael á fimmtudag
A landslið karla mætir Ísrael í Þjóðadeild UEFA á fimmtudag. Leikurinn fer fram í Haifa og er í beinni útsendingu og opinni dagskrá á Viaplay.
Þetta er fyrsti leikur beggja liða í Þjóðadeildinni í ár, en liðin mætast aftur í Reykjavík 13. júní næstkomandi. Áður mætir íslenska liðið Albaníu á Laugardalsvelli 6. júní, einnig í Þjóðadeildinni, og leikur svo vináttuleik gegn San Marínó ytra 9. júní. Þar sem leikir Rússlands í Þjóðadeildinni munu ekki fara fram er ljóst að ekkert hinna liðanna þriggja í riðlinum á möguleika á að falla í C-deild og ljóst að Ísland, Ísrael og Albanía ætla sér öll að keppa um efsta sæti riðilsins, sem er í B-deild.
Allir fjórir leikir A landsliðs karla í júní eru í beinni útsendingu og opinni dagskrá á Viaplay. Einnig verður hægt að fylgjast með gangi mála á samfélagsmiðlum KSÍ.