Ályktun stjórnar KSÍ um þjóðarleikvang
Á fundi stjórnar KSÍ þann 4. apríl síðastliðinn var samþykkt ályktun þar sem fram kemur m.a. að málefni þjóðarleikvangs séu langt frá því að vera á byrjunarreit.
Ályktun stjórnar KSÍ um þjóðarleikvang:
Vegna umræðu og umfjöllunar um málefni þjóðarleikvangs í knattspyrnu vill stjórn koma því á framfæri og árétta að málefni þjóðarleikvangs eru langt frá því að vera á upphafsreit. Fulltrúar KSÍ og knattspyrnunnar hafa undanfarin ár tekið virkan og reglulegan þátt í samráði, undirbúningi og starfi ýmissa vinnuhópa og átt í reglulegum samskiptum, formlegum og óformlegum, við fulltrúa ríkis og borgar og annarra aðila vegna málefna þjóðarleikvangs.
Meðal skrefa sem hafa verið tekin má nefna þátttöku í sérstakri ráðstefnu um þjóðarleikvang í samstarfi við bresk-íslenska viðskiptaráðið, stofnun félags með aðild KSÍ, Reykjavíkurborgar og ríkisins sem ætlað var að „starfa að undirbúningi og mögulegri uppbyggingu þjóðarleikvangs í Laugardal“, útboði á ráðgjafaþjónustu fyrir þjóðarleikvang þar sem markmiðið var að „leita tilboða í ráðgjöf um kostnaðar- og tekjumat vegna fjögurra mismunandi sviðsmynda við endurnýjun Laugardalsvallar“, og svo mætti áfram telja. Ekki má heldur gleyma því að haustið 2020 samþykkti ríkisstjórnin að „hefja viðræður við Reykjavíkurborg um næstu skref vegna byggingar nýs þjóðarleikvangs í knattspyrnu, að tillögu mennta- og menningarmálaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra“.
Að mati stjórnar KSÍ er það fullkomlega óásættanlegt ef ekki verður ráðist í undirbúning að byggingu þjóðarleikvangs í knattspyrnu á þessu ári eftir það sem á undan er gengið. Það verður að tryggja íslenskum landsliðum sem taka þátt í alþjóðlegum mótum og öllum þeim sem koma að slíkum keppnum og leikjum viðeigandi og viðunandi aðstöðu, hvort sem um ræðir keppendur, stuðningsmenn, fjölmiðla eða aðra, og það er brýnt að ráðist sé í þetta verkefni strax. Það er óviðunandi fyrir íslenska þjóð að á því sé raunveruleg hætta að heimaleikir íslenskra landsliða í knattspyrnu þurfi að fara fram á erlendri grundu. Þjóðarleikvangar í knattspyrnu og öðrum íþróttum verða að vera hluti af fjármálaáætlun og það verður að eyrnamerkja fjármagn til þeirra framkvæmda. Íslenskar íþróttir eiga það skilið.
Stjórn KSÍ óskar eftir frekari viðræðum við stjórnvöld án tafar um þá alvarlegu stöðu sem upp er komin.