Viljayfirlýsing um byggingu fjölnota íþróttahúss á Ísafirði
Greint var frá því nýlega á vef Íþróttafélagsins Vestra að á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðar 18. mars hefði verið samþykkt tillaga bæjarráðs varðandi viljayfirlýsingu um samstarf Ísafjarðarbæjar og Íþróttafélagsins Vestra vegna byggingu fjölnota íþróttahúss á Torfnesi á Ísafirði.
Úr frét Vestra: "Í viljayfirlýsingunni kemur fram að Íþróttafélagið Vestri lýsir yfir vilja til að taka yfir heildarumsjón og ábyrgð á byggingu fjölnota íþróttahúss en í því felst hönnun, framkvæmd og fjármögnun. Á móti lýsir Ísafjarðarbær yfir vilja til að taka húsnæðið á leigu og greiða ákveðna upphæð á ári í tiltekinn árafjölda sem nánar verður kveðið á um í samningi þegar forsendur liggja fyrir. Að leigutíma loknum eignast Ísafjarðarbær húsnæðið að fullu. Er miðað við að heildarkostnaður við verkið verði á bilinu 550-650 milljónir króna."
Fjallað var um málið á fundi stjórnar KSÍ í vikunni. Stjórnin fagnar framtakinu, sem er, eins og kemur fram í frétt Vestra "mikilvægt skref í þá átt að leita leiða til að byggja umrætt mannvirki og leysa úr brýnni þörf á bættri aðstöðu á Torfnesi".