A landslið karla mætir Finnlandi á laugardag
A landslið karla mætir Finnlandi í vináttulandsleik í Murcia á Spáni á laugardag. Liðin hafa mæst 13 sinnum áður í gegnum árin og voru saman í riðli í undankeppni HM 2018. Finnar hafa verið að byggja upp sterkt landslið á síðustu árum og voru á meðal þátttökuþjóða í úrslitakeppni EM síðasta sumar.
Íslenska liðið kom saman til undirbúnings og æfinga á Spáni á mánudag og hefur æft stíft þrátt fyrir mikla rigningu síðustu daga og fundað mikið. Liðið leikur tvo vináttuleiki á Spáni í mánuðinum, því auk leiksins við Finna á laugardag þá verður einnig leikið við heimamenn, Spánverja, og fer sá leikur fram í Coruna þann 29. mars.
Leikur Íslands og Finnlands verður í beinni útsendingu á Stöð 2 sport og hefst kl. 16:00 að íslenskum tíma. Leikurinn við Spánverja verður einnig í beinni útsendingu á Stöð 2 sport.