Fundað með borgarstjóra
Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ og Borghildur Sigurðardóttir varaformaður ásamt Klöru Bjartmarz framkvæmdastjóra funduðu nú á dögunum með Degi B. Eggertssyni borgarstjóra og Ómari Einarssyni sviðsstjóra ÍTR. Yfirskrift fundarins var að auka samráð og samstarf KSÍ við Reykjavíkurborg með það að markmiði að bæta aðstöðu og innra starf knattspyrnunnar í borginni.
Á fundinum var rætt um stefnu Reykjavíkurborgar í íþróttamálum til ársins 2030, aðstöðu félaganna í borginni og forgangsröðun uppbyggingar íþróttamannvirkja, kvennaknattspyrnu, hvernig auka megi þátttöku barna af erlendu bergi sem og frá tekjulægri heimilum, lýðheilsu í víðu samhengi og stöðu nýs þjóðarleikvangs. Öll þessi atriði eru hluti af 100 daga áætlun formanns KSÍ þar sem hún ætlar sér að koma þeim málum sem brenna á félögunum í ferli á fyrstu 100 dögum sínum í embætti.
Fundurinn markar upphaf á frekara samstarfi og er markmiðið að vinna áfram með verkefni fundarins á næstu vikum og mánuðum.