Jóhannes Karl Guðjónsson ráðinn aðstoðarþjálfari A landsliðs karla
Mynd: Mummi Lú.
Jóhannes Karl Guðjónsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari A landsliðs karla og hefur hann þegar tekið til starfa.
Skagamaðurinn Jóhannes Karl lék með KA og ÍA í meistaraflokki hér á landi áður en hann hóf atvinnumannsferilinn þar sem hann lék í Belgíu, Hollandi, á Spáni og Englandi. Hann lék alls 34 A-landsleiki fyrir Íslands hönd á árunum 2001-2007 og skoraði eitt mark, og á að auki leiki fyrir U21 og U19 landslið Íslands.
Jóhannes, sem er með KSÍ A þjálfaragráðu og lýkur UEFA Pro gráðu í vor, sneri heim eftir atvinnumennskuna og lék með ÍA, Fram, Fylki og HK áður en hann lagði skóna á hilluna og sneri sér að þjálfun. Þjálfaraferilinn hóf hann hjá HK árið 2016 og var þar við stjórnvölinn þar til hann sneri heim á Skagann árið 2018 og tók við liði ÍA, sem hann hefur stýrt síðan, en lætur nú af því starfi.
Næsta verkefni A landsliðs karla eru tveir vináttuleikir á Spáni í mars – fyrst gegn Finnum á Stadium Enrique Roca í Murcia 26. mars og síðan gegn Spánverjum 29. mars, á Riazor-leikvanginum í Coruna.
KSÍ býður Jóhannes Karl velkominn til starfa.