Jafntefli gegn Úganda
A karla gerði 1-1 jafntefli við Úganda, en leikið var í Belek í Tyrklandi.
Ísland byrjaði leikinn vel og tók forystuna eftir aðeins sex mínútna leik. Viðar Ari Jónsson átti þá flotta fyrirgjöf sem Jón Daði Böðvarsson skallaði í netið. Liðið hélt áfram að leika vel eftir markið, en fljótlega komst Úganda betur inn í leikinn. Þeir jöfnuðu svo leikinn á 31. mínútu þegar Úganda skoraði af vítapunktinum. Leikurinn var nokkuð jafn eftir þetta þangað til að flautað var til hálfleiks. Staðan jöfn, 1-1.
Síðari hálfleikurinn var jafn allan tímann og áttu bæði lið fína kafla þar sem þau héldu boltanum vel. Liðin áttu þá erfitt með að skapa færi og tókst hvorugu liði að skora. Lokatölur því 1-1.
Ísland mætir Suður Kóreu á laugardag í síðari vináttuleik liðsins í janúar og hefst hann kl. 11:00. Bein útsending verður frá honum á Stöð 2 Sport.