A landslið karla mætir Spáni í mars
KSÍ getur staðfest að A landslið karla mætir Spánverjum í vináttulandsleik á Spáni 29. mars. Leikstaður hefur ekki verið ákveðinn.
Spánverjar sitja sem stendur í 7. sæti á styrkleikalista FIFA, hafa um árabil verið með eitt af sterkustu landsliðum heims og hafa hampað bæði heimsmeistara- og Evrópumeistaratitlum.
Spánn og Ísland hafa 9 sinnum mæst í A landsliðum karla, síðast árið 2007 í undankeppni EM 2008. Ísland hefur unnið einn leik, tveggja marka sigur á Laugardalsvelli 1991, Spánn hefur unnið 6 leiki og tvisvar sinnum hafa liðin gert jafntefli. Aldrei hafa verið skoruð fleiri en þrjú mörk í leikjunum.
Unnið er að staðfestingu á öðrum vináttuleik A karla í mars og verður hann tilkynntur við fyrsta tækifæri.
Eins og áður hefur verið tilkynnt leikur A landslið karla einnig tvo vináttuleiki í janúar, gegn Úganda 12. janúar og gegn Suður-Kóreu 15. janúar, og fara báðir leikirnir fram í Tyrklandi.