• mið. 10. nóv. 2021
  • Landslið
  • A karla

A karla mætir Rúmeníu á fimmtudag

A landslið karla mætir Rúmeníu í undankeppni HM 2022 í Búkarest á fimmtudag.  Leikurinn hefst kl. 19:45 að íslenskum tíma (21:45 að staðartíma) og verður í beinni útsendingu á RÚV.  Um er að ræða næst síðustu umferðina í undankeppni HM.  Þjóðverjar hafa þegar tryggt sér efsta sætið og þar með sæti í úrslitakeppni HM í Katar, en baráttan um umspilssætið er á milli Rúmeníu, Norður-Makedóníu, Armeníu og Íslands, sem á enn möguleika.  Íslenska liðið þarf sigur í báðum sínum leikjum, gegn Rúmeníu og svo gegn Norður-Makedóníu, og þarf auk þess að treysta á hagstæð úrslit úr öðrum leikjum.

Ísland og Rúmenía hafa mæst fjórum sinnum í A landsliðum karla.  Rúmenar hafa unnið þrjá leiki og Íslendingar einn og sá sigur kom í undanúrslitaleik umspils um sæti í úrslitakeppni EM síðasta haust, en sem kunnugt er tapaði íslenska liðið síðan fyrir Ungverjum í úrslitaleik um EM-sæti á lokamínútunum. 

Rúmenar unnu fyrri viðureign liðanna í þeirri undankeppni sem nú stendur yfir, tveggja marka sigur á Laugardalsvelli í september.  Hinar tvær viðureignir liðanna voru í undankeppni HM 1998 og þá unnu Rúmenar báða leikina með fjórum mörkum gegn engu.  Rúmenska liðið komst í 16-liða úrslit í Heimsmeistarakeppninni í Frakklandi 1998 með fyrirliðann Gheorghe Hagi í fararbroddi.

Skoða riðilinn og leikina