Hannes Þór og Kári heiðraðir fyrir leik Íslands og Liechtenstein
Hannes Þór Halldórsson og Kári Árnason verða heiðraðir fyrir feril sinn með A landsliði karla fyrir leik Íslands og Liechtenstein á Laugardalsvelli á mánudag. Þetta verður gert eftir upphitun liðanna og vill KSÍ hvetja vallargesti til að mæta tímanlega og hylla leikmennina.
Hannes Þór Halldórsson er fæddur árið 1984 og er því 37 ára á þessu ári. Hans fyrsti A-landsleikur var leikur gegn Kýpur árið 2011 í undankeppni EM 2012. Hannes Þór lék á ferli sínum 77 A landsleiki og var aðalmarkvörður liðsins bæði á EM 2016 og HM 2018.
Kári Árnason lék sinn fyrsta A landsleik árið 2005, þá 23 ára gamall, þegar Ísland mætti Ítalíu í vináttuleik ytra. Kári, sem er fæddur 1982, lék á ferli sínum með A karla 90 leiki og skoraði í þeim 6 mörk, en hann var máttarstólpi í vörn Íslands á bæði EM 2016 og HM 2018.