• mán. 06. sep. 2021
  • Landslið
  • A karla

Heiðraðir fyrir að leika 100 A-landsleiki

Birkir Bjarnason og Birkir Már Sævarsson léku báðir sinn 100. A-landsleik þegar Ísland mætti Norður-Makedóníu á Laugardalsvelli á sunnudag. Af því tilefni verða þeir heiðraðir sérstaklega áður en þjóðsöngvarnir verða leiknir fyrir leikinn við Þýskaland á miðvikudag og vill KSÍ hvetja vallargesti til að mæta tímanlega og hylla leikmennina.

Birkir Bjarnason er fæddur árið 1988 er því 33 ára á þessu ári. Hans fyrsti A-landsleikur var vináttulandsleikur gegn Andorra árið 2010 og hefur hann skorað 14 mörk í leikjunum hundrað. Til viðbótar hefur Birkir leikið 46 leiki fyrir yngri landslið Íslands.

Birkir Már Sævarsson var á 23. aldursári þegar hann lék sinn fyrsta A-landsleik árið 2007, gegn Liechtenstein í undankeppni EM. Birkir, sem er fæddur 1984, verður 37 ára síðar á þessu ári og hefur skorað 3 mörk fyrir A landsliðið.

Í reglugerð KSÍ um landsliðs- og heiðursviðurkenningar segir m.a. „Heiðursviðurkenning fyrir 100 landsleiki: Sérhannað listaverk skal veita í viðurkenningaskyni þeim knattspyrnuleikmönnum sem náð hafa að leika 100 A-landsleiki.“. Þeim Birki og Birki Má verður afhent málverk fyrir þennan áfanga við fyrsta tækifæri.

Þetta er stór áfangi í sögu A landsliðs karla, því eini leikmaðurinn sem hafði áður náð hundrað leikjum er Rúnar Kristinsson, leikjahæsti leikmaður karlalandsliðsins frá upphafi, sem lék 104 A-landsleiki á árinum 1987 til 2004 og var heiðraður sérstaklega fyrir vináttuleik við Ítalíu það ár, hans síðasta leik með liðinu.

Birkir Bjarnason - A-landsleikir

Birkir Már Sævarsson – A-landsleikir