Almennar fjöldatakmarkanir verða 300 manns frá og með 15. júní
Frá og með 15. júní fara fjöldatakmörk úr 150 manns í 300 og nándarregla verður 1 metri í stað tveggja. Á sitjandi viðburðum verður engin nándarregla en öllum skylt að bera grímu. Þetta er meðal þess sem kemur fram á vef Stjórnarráðsins um reglugerð sem tekur gildifrá og með 15. júní og gildir til 29. júní.
Af vef Stjórnarráðsins:
Helstu breytingar á samkomutakmörkunum frá og með 15. júní:
- Almennar fjöldatakmarkanir 300 manns. Börn fædd 2015 og síðar áfram undanþegin.
- Nándarregla einn metri í stað tveggja.
- Sitjandi viðburðir: Engin krafa um nándarmörk. Áfram grímuskylda og að hámarki 300 manns í hverju sóttvarnahólfi. Með sitjandi viðburðum er átt við leikhús, íþróttaviðburði, athafnir trúar- og lífsskoðunarfélaga, ráðstefnur og viðlíka.
- Veitingastaðir: Opnunartími veitingastaða lengist um klukkustund, frá kl. 23 til miðnættis. Gestir þurfa að hafa yfirgefið staðinn fyrir kl. 01.00.
Gildistími: Reglugerð sem felur í sér ofangreindar breytingar á samkomutakmörkunum innanlands mun gilda til og með þriðjudagsins 29. júní næstkomandi.