A landslið karla mætir Póllandi á þriðjudag
A landslið karla er komið Póllands þar sem liðið mætir Pólverjum í vináttuleik í Poznan á þriðjudag. Leikurinn verður í beinni útsendingu á RÚV og hefst kl. 16:00 að íslenskum tíma.
Um er að ræða síðasta vináttuleikinn í þriggja leikja seríu íslenska liðsins, sem mætti Mexíkó í Dallas, Texas, aðfaranótt 30. maí, ferðaðist svo til Íslands og æfði í nokkra daga áður en haldið var til Færeyja og leikið við heimamenn 4. júní, og nú er komið að leiknum við Pólland 8. júní. Það er óhætt að segja að leikmenn og starfsfólk íslenska liðsins hafi verið á faraldsfæti.
Ísland og Pólland hafa mæst 6 sinnum í A landsliðum karla. Fimm sinnum hafa Pólverjar fagnað sigri, en einu sinni var niðurstaðan jafntefli og var það í vináttuleik á Laugardalsvelli árið 2001. Andri Sigþórsson skoraði mark íslenska liðsins seint í leiknum. Arnar Þór Viðarsson sem er nú við stjórnvölinn hjá A landsliði karla var í íslenska liðinu í þeim leik.
Sem fyrr segir mætast liðin nú í Poznan, á heimavelli Lech Poznan, sem tekur tæplega 42 þúsund áhorfendur í sæti, en leyfilegur hámarksfjöldi að þessu sinni er helmingur af sætafjöldanum. Leikvangurinn var vígður árið 1980 og endurbættur árið 2010. Leikurinn er síðasti leikur pólska liðsins áður en það hefur þátttöku í lokakeppni EM og er búist við mikilli stemmningu á leikvanginum, sem hefur einnig hýst risatónleika listamanna á borð við Sting, Aliciu Keys og hina síungu rokkara í Iron Maiden.