• fös. 04. jún. 2021
  • Landslið
  • A karla

Eins marks íslenskur sigur í Þórshöfn

A landslið karla vann eins marks sigur á Færeyingum í vináttulandsleik í Þórshöfn í Færeyjum í kvöld, föstudagskvöld.  Eina mark leiksins gerði Mikael Anderson á 70. mínútu eftir góðan undirbúning Birkis Bjarnasonar og stoðsendingu Alberts Guðmundssonar.  Birkir rakti boltann upp völlinn og sendi inn á teiginn á Albert, sem skallaði hann fyrir Mikael sem skoraði sitt fyrsta A-landsliðsmark með flottu vinstri fótar skoti.

Færeyingar voru sterkari aðilinn í leiknum lengst af en færin voru á báða bóga og fékk m.a. Kolbeinn Sigþórsson dauðafæri til að ná forystunnií fyrri hálfleik og hefði hann þar með slegið markametið með íslenska landsliðinu ef hann hefði skorað.  Íslenska liðið sýndi seiglu í seinni hálfleik og landaði sigrinum.  Leikurinn var annar í röð þriggja vináttuleikja liðsins, sem mætti fyrst Mexíkó í Dallas áður en haldið var til Færeyja.  Seinasti leikurinn er gegn Pólverjum í Poznan 8. júní næstkomandi.