Fjögur íslensk mörk í Vaduz
A landslið karla vann í kvöld, miðvikudagskvöld, 4-1 sigur á Liechtenstein þegar liðin mættust á Rheinpark í Vaduz í undankeppni HM 2022. Íslenska liðið náði þarna í sín fyrstu stig og fyrstu mörk í riðlinum. Aðrir leikir riðilsins fóru þannig að Armenar lögðu Rúmena og Norður-Makedónía vann frækinn sigur á Þýskalandi. Ísland er því með þrjú stig í riðlinum líkt og Rúmenía, en Liechtenstein er án stiga eftir þrjár umferðir, Þýskaland og Norður-Makedónía eru með 6 stig, Armenía er á toppnum með fullt hús stiga.
Íslenska liðið hafði mikla yfirburði allan leikinn og stjórnaði spilinu allan tímann. Birkir Már Sævarsson og Birkir Bjarnason skoruðu í fyrri hálfleik og Guðlaugur Victor Pálsson skoraði þriðja markið áður en Liechtenstein minnkaði muninn. Heimamenn náðu ekkert að ógna marki Íslands í fyrri hálfleik en náðu góðu skoti í seinni hálfleik sem Rúnar Alex varði vel og mark Liechtenstein kom svo beint úr hornspyrnunni. Rúnar Már Sigurjónsson innsiglaði íslenskan sigur með marki úr vítaspyrnu í uppbótartíma.
Næstu verkefni A landsliðs karla eru vináttuleikir í júní og undankeppni HM heldur svo áfram í september.