Hópur U21 karla fyrir lokakeppni EM 2021 tilkynntur 18. mars
Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Davíð Snorri Jónasson, landsliðsþjálfari U21 karla, mun fimmtudaginn 18. mars tilkynna hóp liðsins fyrir lokakeppni EM 2021.
Ísland er í riðli með Rússlandi, Danmörku og Frakklandi, en liðið leikur alla leiki sína í Györ í Ungverjalandi. Tvö efstu lið riðilsins fara áfram í 8-liða úrslit keppninnar, en þau fara fram í Ungverjalandi og Slóveníu í júní.
Liðið hefur leik sinn á mótinu þann 25. mars þegar það mætir Rússlandi, næst leika strákarnir gegn Danmörku og enda svo riðlakeppnina á leik gegn Frakklandi.
U21 karla tók síðast þátt í lokakeppni EM árið 2011 og var grátlega nálægt því að fara áfram í 8-liða úrslit. Sviss endaði riðilinn með fullt hús stiga, en Hvíta-Rússland, Ísland og Danmörk voru öll jöfn að stigum og með sömu markatölu í 2.-4. sæti riðilsins. Hvíta-Rússland fór áfram í 8-liða úrslitin þar sem liðið var með bestan innbyrðis árangur gegn Íslandi og Danmörku.
Leikir Ísland á EM
Ísland - Rússland fimmtudaginn 25. mars á Gyirmóti Stadion í Györ og hefst hann kl. 17:00
Ísland - Danmörk sunnudaginn 28. mars á Gyirmóti Stadion í Györ og hefst hann kl. 13:00
Ísland - Frakkland miðvikudaginn 31. mars á Gyirmóti Stadion í Györ og hefst hann kl. 16:00