• fim. 11. feb. 2021
  • Landslið
  • A karla

Lars Lagerbäck í starfslið A landsliðs karla

KSÍ hefur gengið frá ráðningu Lars Lagerbäck í starfslið A landsliðs karla. Lars, sem er fyrrverandi þjálfari íslenska liðsins og hefur að auki þjálfað karlalandslið Svíþjóðar, Nígeríu og Noregs, mun gegna stöðu tæknilegs ráðgjafa og verður verkefni hans fyrst og fremst að styðja við þjálfarateymi liðsins. Lars, sem hefur mikla þekkingu á og reynslu af umhverfi landsliða, hefur þegar hafið störf ásamt þjálfarateyminu og öðru starfsliði við undirbúning komandi verkefna í undankeppni HM 2022.

Arnar Þór Viðarsson þjálfari A landsliðs karla um ráðninguna: "Lars býr yfir gríðarlegri reynslu sem mun gagnast okkur vel í komandi verkefnum. Hann þekkir íslenska landsliðsumhverfið og okkar kúltúr frá tíma sínum sem þjálfari íslenska liðsins og hefur auðvitað þjálfað önnur landslið og farið á mörg stórmót. Ráðning Lars styrkir starfsteymi liðsins enn frekar og mun hjálpa okkur að ná okkar markmiðum".

Lars Lagerbäck um að vera kominn aftur í starfslið íslenska karlalandsliðsins: "Ég er virkilega ánægður og hlakka til að vinna aftur með íslenska landsliðinu, enda á ég margar góðar minningar frá tíma mínum sem þjálfari liðsins. Vonandi get ég hjálpað Arnari og þjálfarateyminu, og miðlað af minni reynslu til að styðja við starfsliðið og leikmennina.  Þar til tekst að koma böndum á kórónaveirufaraldurinn mun ég starfa með Arnari og landsliðinu eins vel og hægt er í gegnum stafrænar lausnir. Vonandi get ég ferðast til Íslands á næstu mánuðum til að taka enn virkari þátt í starfinu og til að fínstilla samstarfið með Arnari og starfsliðinu".

Fyrstu verkefni ársins hjá A landsliði karla eru þrír útileikir í undankeppni HM 2022 í mars - gegn Þýskalandi, Armeníu og Liechtenstein.

Mynd með grein:  Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net