• mið. 03. feb. 2021
  • Landslið
  • A karla

Leikir A landsliðs karla á Viaplay árin 2022-2028

UEFA selur markaðs- og sjónvarpsréttindi að leikjum A landsliða karla (mótsleikir og vináttuleikir) samkvæmt sérstökum samningi þar um fyrir hönd flestra sinna aðildarlanda (þar á meðal fyrir KSÍ). Markmiðið með sölu markaðs- og sjónvarpsréttinda er að hámarka mögulegar tekjur af slíkum samningum fyrir viðkomandi knattspyrnusambönd, enda eru sjónvarpsréttindi stór og gríðarlega mikilvæg tekjulind í knattspyrnu.

Þessar tekjur skipta sköpum fyrir starfsemi KSÍ og fyrir íslenska knattspyrnu. Tekjur í gegnum sölu á markaðs- og sjónvarpsréttindum gera KSÍ kleift að halda úti landsliðum, styðja við starf aðildarfélaganna, mæta kostnaði við mótahald og dómgæslu, og halda úti fræðslu- og útbreiðslustarfi og annarri mikilvægri starfsemi í áframhaldandi uppbyggingu í íslenskri knattspyrnu.

Leikir A landsliðs karla í undankeppni HM 2022, sem verður leikin á árinu 2021, verða sýndir á RÚV. Réttindi að leikjum A landsliðs karla árin 2022 til 2028 voru nýlega seld í útboði sem opið var öllum, þar með töldum öllum íslenskum sjónvarpsstöðvum og/eða streymisveitum. NENT - Nordic Entertainment Group (Viaplay) átti besta tilboðið og tryggði sér þar með sýningarréttinn að öllum leikjum (heimaleikjum og útileikjum) A landsliðs karla á umræddu tímabili.

Viaplay er áskriftarsjónvarp/streymisveita og því má reikna með því að til að sjá leiki Íslands þurfi annað hvort að kaupa áskriftarpakka eða kaupa stakan leik á hóflegu verði, eins og hægt er að gera með íþróttaviðburði, kvikmyndir og annað efni í gegnum ýmsar streymisveitur dagskrá. Einnig verður hluti leikjanna sýndur í opinni dagskrá.

Stuðningsmenn íslenska liðsins og knattspyrnuáhugafólk mun sem fyrr geta keypt aðgöngumiða á heimaleiki liðsins á Laugardalsvelli á sanngjörnu verði, og auðvitað á útileiki eins og við á. Þau sem komast ekki á vellina sjálfa munu geta séð leikina á Viaplay.