Ísland í 46. sæti á FIFA-listanum
A landslið karla er í 46. sæti á nýútgefnum styrkleikalista FIFA og fellur um sjö sæti frá því listinn var síðast gefinn út. Belgía situr áfram í efsta sæti listans, Mexíkó og Ítalía eru komin á topp tíu á kostnað Króatíu og Kólumbíu.
Topplið listans var sem kunnugt er einn af mótherjum Íslands í Þjóðadeild UEFA í haust, ásamt Englandi (4. sæti) og Danmörku (12. sæti). Mótherjar Íslands í umspilsleikjunum, Rúmenía og Ungverjaland, eru í 37. og 40. sæti og bæði lið hækka sig um 7 sæti milli mánaða.
Ef eingöngu Evrópuþjóðir eru teknar með í reikninginn er Ísland í 27. sæti af 55 aðildarþjóðum UEFA og eins og kynnt hefur verið var styrkleikalisti FIFA lagður til grundvallar þegar raðað var í styrkleikaflokka fyrir dráttinn í undankeppni HM 2022, en þar er íslenska liðið í 3. flokki.
Smellið hér til að skoða listann í heild sinni