Hamrén hættir
Erik Hamrén, þjálfari A landsliðs karla, tilkynnti á blaðamannafundi í dag, laugardag, að hann hygðist ekki halda áfram með liðið eftir að keppni í Þjóðadeildinni lýkur. Blaðamannafundurinn fór fram á Parken í Kaupmannahöfn, þar sem Ísland mætir Danmörku á sunnudag, og seinasti leikur ársins verður svo gegn Englandi á Wembley í Lundúnum á miðvikudag. Þetta verða því síðustu tveir leikir Svíans geðþekka með liðið.
Erik Hamrén tók við A landsliði karla haustið 2018 og stýrði íslenska liðinu í fyrstu útgáfu Þjóðadeildar UEFA það haust, í undankeppni EM 2020 á árinu 2019 og svo í Þjóðadeildinni 2020 sem nú stendur yfir og umspili um sæti í lokakeppni EM.
Ísland hefur alls leikið 26 leiki síðan Erik Hamrén tók við sem þjálfari, unnið níu sigra, gert fimm jafntefli og tapað tólf leikjum.