• fim. 12. nóv. 2020
  • Landslið
  • A karla

Tap gegn Ungverjalandi

Ísland tapaði 1-2 gegn Ungverjalandi í úrslitaleik umspilsins fyrir EM 2020, en leikið var í Búdapest.

Ísland byrjaði leikinn vel og setti fína pressu á Ungverjana. Strax á 4. mín átti Guðlaugur Victor Pálsson skalla á markið eftir hornspyrnu Gylfa Þór Sigurðssonar, en Gulasci varði. Strákarnir héldu áfram að hafa yfirhöndina og á 11. mínútu skoraði Gylfi Þór fyrsta mark leiksins. Það var brotið á Jóhann Berg Guðmundssyni rétt fyrir utan teiginn, Gylfi Þór tók spyrnuna sem endaði í netinu eftir að Gulasci gerði sig sekan um mistök í marki Ungverja.

Filip Holender átti fyrsta færi Ungverja í leiknum á 18. mínútu, en Hannes Þór Halldórsson varði skot hans auðveldlega. Fjórum mínútum síðar varði Hannes vel skalla Orban. Nokkuð jafnræði var með liðunum á þessum tímapunkti og stuttu síðar endaði góð sókn Íslands á því að Gulasci varð skalla Alfreðs Finnbogasonar. Alfreð var nálægt því að koma boltanum á Birki Bjarnason fimm mínútum síðar, en vörn Ungverja náði að komast frábærlega fyrir boltann.

Ungverjar komust betur og betur inn í leikinn þegar líða tók á hálfleikinn, Ungverjar voru nálægt því að skora úr aukaspyrnu þegar um fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik, en hún fór yfir. Gylfi Þór átti svo gott skot undir lok hálfleiksins, en Gulasci varð vel.

Ungverjaland byrjaði síðari hálfleikinn af krafti og Attila Szalai var ekki langt frá því að jafna leikinn, en skot hans fór af varnarmanni Íslands og rétt yfir. Strákunum tókst ekki að halda boltanum vel, og Ungverjar settu pressu á vörn Íslands. 

Á 72. mínútu gerði Ísland sínar fyrstu skiptingar. Jón Daði Böðvarsson og Albert Guðmundsson komu inn á, en útaf fór Alfreð Finnbogason og Jóhann Berg Guðmundsson. Tíu mínútum síðar kom Ari Freyr Skúlason inn á fyrir Aron Einar Gunnarsson.

Jón Daði Böðvarsson komst upp hægri kantinn, setti fastan bolta fyrir markið en Albert var hársbreidd frá því að ná að komast í boltann og setja hann á markið. Stuttu síðar kom Sverrir Ingi Ingason inn á fyrir Rúnar Má Sigurjónsson. Mínútu síðar jöfnuðu Ungverjar leikinn, boltinn datt fyrir Nego og hann setti hann í netið. Fjórum mínútum síðar skoruðu Ungverjar sigurmarkið, en það gerði Dominik Szoboszlai með góðu skoti, stöngin og inn.

Hrikalega sárt tap staðreynd í Búdapest sem þýðir að Ísland verður ekki á meðal þátttakenda á EM 2020.